Innlent

Innleiðingarhallinn ekki mælst minni frá 2010

Atli Ísleifsson skrifar
Innleiðingarhalli tilskipana í tilviki Íslands er nú 1 prósent samanborið við 1,8 prósent í síðasta frammistöðumati.
Innleiðingarhalli tilskipana í tilviki Íslands er nú 1 prósent samanborið við 1,8 prósent í síðasta frammistöðumati. Vísir/hanna andrésdóttir
Umtalsvert hefur dregið úr innleiðingarhalla tilskipana og reglugerða sem falla undir EES-samninginn og hefur hann ekki verið minni frá 2010 í tilviki Íslands.

Frá þessu segir á heimasíðu ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Þar er lýst yfir ánægju með frammistöðu EFTA-ríkjanna – Íslands, Noregs og Liechtenstein – og eru þau hvött til að halda áfram á sömu braut.

Innleiðingarhalli tilskipana í tilviki Íslands er nú 1 prósent samanborið við 1,8 prósent í síðasta frammistöðumati og hefur hallinn ekki verið minni síðan nóvember 2010. Innleiðingarhalli reglugerða er 0,8 prósent samanborið við 1,2 prósent áður sem er að sama skapi sá lægsti frá árinu 2016.

„Í tilviki Noregs dregur á ný úr innleiðingarhalla tilskipana sem er aðeins 0,1 prósent samanborið við 0,5 prósent áður. Innleiðingarhalli reglugerða er nú 1,1 prósent en var 0,1 prósent áður.

Að sama skapi dregur úr innleiðingarhalla í Liechtenstein en 0,7 prósent tilskipana hafa ekki verið innleiddar samanborið við 1,3 prósent  áður,“ segir í frétt um málið á heimasíðu ESA.

Högni Kristjánsson, stjórnarmaður ESA, segir þennan mikla árangur í að draga úr innleiðingarhalla tilskipana og reglugerða á Íslandi, sem og í öðrum EFTA ríkjum, lýsii vel traustu samstarfi EFTA ríkjanna og vilja þeirra til þess að vinna saman að öflugum innri markaði.“

Frammistöðumatið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×