Sport

Daniel Cormier með sögulegan sigur

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Daniel Cormier með beltin sín.
Daniel Cormier með beltin sín. Vísir/Getty

Daniel Cormier skráði sig á spjöld sögunnar með sigri á Stipe Miocic í nótt. Með sigrinum er hann ríkjandi meistari í þungavigt og léttþungavigt.

Þetta var í fyrsta sinn í sögu UFC þar sem léttþungavigtarmeistarinn skorar á þungavigtarmeistarann. Stipe Miocic hafði varið þungavigtartitil sinn þrívegis fram að bardaganum í kvöld en það er met í þungavigt UFC.

Stipe Miocic byrjaði bardagann vel og var með stjórn á bardaganum framan af. Daniel Cormier kýldi hins vegar þungavigtarmeistarann niður með hægri krók í 1. lotu og fylgdi því eftir með höggum í gólfinu. Cormier fagnaði ógurlega og er hann aðeins annar maðurinn í sögu UFC til að vera meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma. Conor McGregor var sá fyrsti til að ná því afreki í nóvember 2016. Með sigrinum er Cormier svo sannarlega meðal þeirra bestu í sögu MMA.

Fyrsta titilvörn Cormier í þungavigt verður að öllum líkindum gegn Brock Lesnar en sá síðarnefndi mætti í búrið eftir bardagann með vandræðaleg læti. Lesnar þarf þó fyrst að klára afplánun keppnisbanns en hann féll á lyfjaprófi árið 2016.

Þeir Francis Ngannou og Derrick Lewis mættust í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Óhætt er að segja að bardaginn sé einn sá versti í sögu UFC en afskaplega lítið gerðist í bardaganum. Lewis sigraði eftir dómaraákvörðun og var baulað á báða bardagamenn.

Fyrir utan bardaga Lewis og Ngannou var bardagakvöldið afar skemmtilegt en öll úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.


Tengdar fréttir

Getur Daniel Cormier skráð sig á spjöld sögunnar?

Stærsta bardagakvöld ársins fer fram í kvöld í Las Vegas þar sem tveir ríkjandi meistarar mætast í sannkölluðum ofurbardaga. Daniel Cormier getur skráð sig á spjöld sögunnar með sigri en á erfitt verkefni í vændum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.