Erlent

Aftur leita Argentínumenn til AGS

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Argentínumenn mótmæltu á götum úti þegar fregnir bárust af því að stjórnvöld hefðu aftur leitað á náðir AGS - FMI upp á spænsku.
Argentínumenn mótmæltu á götum úti þegar fregnir bárust af því að stjórnvöld hefðu aftur leitað á náðir AGS - FMI upp á spænsku. Vísir/AFP

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) er sagður hafa samþykkt að veita argentínskum stjórnvöldum lán sem nemur um 50 milljörðum bandaríkjadala, rúmlega 5200 milljörðum íslenskra króna. Láninu er ætlað að styrkja lemstraðan efnahag landsins.

Þrátt fyrir að stjórn sjóðsins eigi formlega eftir að gefa grænt ljós á lánveitinguna hefur framkvæmdastjóri AGS, Christine Lagarde, hrósaði Argentínumönnum fyrir að hafa náð samkomulaginu. Því er ætlað að fátt sé því til fyrirstöðu að lánið verði veitt.

Argentínumenn, sem hafa í raun glímt við efnahagsvandræði í áratugi, sóttu um aðstoð AGS þann 8. maí síðastliðinn þegar gengi argentínska pesósins hafði sjaldan verið veikara.

Stjórnvöld hafa heitið því að bregðast við efnahagsástandinu, ekki síst verðbólgunni sem nú er um 20 prósent. Ætla má að það muni fela í sér umtalsverðan niðurskurð í útgjöldum ríkisins með meðfylgjandi uppsögnum.

Forseti landsins, Mauricio Macri, hefur því verið harðlega gagnrýndur heimafyrir vegna lánsumsóknarinnar.

AGS óvinsæll

AGS er ekki hátt skrifaður í Argentínu en margir telja að efnahagshrun landsins árið 2001 megi að miklu leyti rekja til aðgerða sjóðsins, sem sagður er hafa skilið ríkið eftir eitt úti í kuldanum.

Engu að síður telur Macri að lánveitingin muni ýta undir vöxt efnahagskerfisins og tryggja það að Argentínumenn lendi ekki í sömu kröggum og áður.

Efnahagssaga Argentínu á liðinni öld er sveiflu- og öfgakennd. Frá miðri síðustu öld hefur argentínskur efnahagur verið verkalýðshreyfingardrifinn sósíalismi undir merkjum Juan Perón, herforingjastjórninn tók svo hægri beygju áður en lýðræðislega kjörin stjórnvöld horfðu aftur til sósíalismans. 

Á tíunda áratugnum réði frjálshyggjan svo ríkjum og markast endalok hennar af fyrrnefndu hruni árið 2001. Síðan þá hafa efnahagsmál ríkisins markast af samblöndu frjálshyggju og Perónisma - sem leitt hefur til fyrrnefndrar lánveitingar.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.