Skoðun
Óttar Guðmundsson

Lifi náttúruverndin

Óttar Guðmundsson skrifar

Þegar landnámsmenn komu til Íslands á seinni hluta 9. aldar var landið skógi vaxið frá fjöru til fjalls. Nokkrum áratugum síðar var þetta skóglendi horfið enda nýttu landnámsmenn skóginn til húsagerðar og eldiviðar fyrstu ár sín í landinu. Lífsbaráttan var erfið og skilyrði til búsetu önnur en í heimahögunum. Skógurinn bjargaði lífi þeirra meðan þeir vöndust óblíðri náttúru og nýjum aðstæðum.

Landnámsmenn geta þakkað fyrir að nútíma náttúruvernd var ekki til í landinu. Þeim hefði verið harðbannað að snerta skóginn þótt líf lægi við. Þessir fyrstu búendur landsins hefðu hrökklast aftur til heimahaganna kaldir og hraktir eftir skelfilegan vetur. Landið hefði staðið eftir skógivaxið í allri sinni fegurð en fólkið flúið.

Æ síðan hefur sagan einkennst af náttúruspjöllum. Hafnir voru byggðar sem sköðuðu viðkvæmt fuglalíf. Brýr eyðilögðu tignarleika stórfljóta. Vegslóðar, íbúðarhús og kirkjur spilltu landslagi til sveita. Á tuttugustu öldinni kastaði þó fyrst tólfunum þegar menn virkjuðu stórfljót og eyðilögðu ásýnd landsins með raflínum. Mörgum ómetanlegum og óþekktum fossum var fórnað svo að mannfólkið gæti bætt lífsgæði sín með rafmagni og öðrum hégóma.

Hrafna-Flóki Vilgerðarson reyndi að nema land á Barðaströnd en flúði til Noregs eftir tvo vetur. Bústofninn drapst hjá Flóka því að hann vildi ekki nýta landið til heyvinnslu. Aðrir landnámsmenn hefðu átt að gera slíkt hið sama svo að Ísland yrði um framtíð óbyggð og ósnert túristaparadís og þjóðgarður. Reyndar væri íslensk þjóð ekki til en hverjum er ekki sama um það þegar hagsmunir náttúruverndar eru í húfi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Akkkuru?

Guðmundur Brynjólfsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.