Innlent

Nýir flokkar í sókn og Putin í Víglínunni

Þórdís Valsdóttir skrifar

Í dag er hálfur mánuður til sveitarstjórnarkosninga hinn 26. maí næst komandi. Eins og gengur má búast við breytingum á bæjarstjórnum víðs vegar um landið en hvernig sem fer verður nokkur endurnýjun á fólki. Í Reykjavík hafa aldrei fleiri flokkar og framboð barist um hylli kjósenda en sextán framboðslistar eru í boði í höfuðborginni.

Samkvæmt könnunum munu flest þeirra fara erindisleysu en framboð tveggja nýrra flokka virðast þó njóta töluverðrar hylli kjósenda samkvæmt könnunum. Það eru Viðreisn og Miðflokkurinn en báðir flokkarnir bjóða nú fram í fyrsta sinn til sveitarstjórna og báðir flokkarnir eru að hluta til byggðir á klofningi úr öðrum flokkum; Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins mæta í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns til að ræða framboðsmálin og hvað þessir flokkar telja sig hafa fram að færa sem aðrir flokkar hafa ekki.

Vladimir Putin sór embættiseið í fjórða sinn sem forseti Rússlands síðast liðinn mánudag. Nikolaij Petrov stjórnmálafræðingur frá Moskvu kemur í Víglínuna til að ræða þennan umdeilda og einn valdamesta mann heims. Petrov var einn af aðstoðarmönnum Borisar Jeltsín fyrsta lýðræðislega kjörna forseta Rússlands og þekkir vel til gangverks rússneskra stjórnmála.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl. 12:20.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.