Erlent

Góðgerðafélag Soros flýr kúgunartilburði í Ungverjalandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Framboð Orban forsætisráðherra réðst að Soros í kosningabaráttunni
Framboð Orban forsætisráðherra réðst að Soros í kosningabaráttunni Vísir/AFP

Sjóður ungverska athafnamannsins George Soros ætlar að loka skrifstofum sínum í Búdapest og sakar stjórnvöld í Ungverjalandi um að skapa kúgandi pólitísk og lagalegt umhverfi. Ríkisstjórn landsins tilkynnti í gær að hún hygðist herða lög um félagasamtök og er þeim beint leynt og ljóst gegn Soros.

Höfuðstöðvar Sjóðs um opið samfélag (OSF) verða fluttar til Berlínar. Frumvarpið sem ríkisstjórn hægriþjóðernissinnans Viktors Orban tilkynnti um í gær nefnist „Stöðvum Soros“-frumvarpið, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Orban vann yfirburðasigur í þingkosningum í síðasta mánuði. Hann hefur ítrekað sakað Soros og sjóð hans um að ýta undir komur flóttamanna og grafa undan þjóðmenningu Ungverjalands.  Undir stjórn Orban hefur Ungverjaland neitað að taka við flóttamönnum eins og önnur ESB-ríki.

„Ríkisstjórn Ungverjalands hefur svert og farið með rangfærslur um störf okkar og bælt niður borgaralegt samfélag í pólitískum tilgangi með aðferðum sem eru fordæmalausar í sögu Evrópusambandsins,“ segir Patrick Gaspard, forseti OSF í yfirlýsingu vegna flutningsins.

ODF hefur unnið að mannréttindamálum en einnig styrkt verkefni á sviði lista, fjölmiðlafrelsis, gagnsæis, menntunar og heilbrigðismála.

Ýmsir hópar öfgahægrimanna og þjóðernissinna á vesturlöndum hafa einnig gert Soros að grýlu sem þeir telja að standi að baki frjálslyndum hópum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.