Heilsuvísir

Hreyfing kemur í veg fyrir depurð

Það eru ekki ný sannindi að hreyfing gerir kraftaverk fyrir heilsuna þegar við eldumst.
Það eru ekki ný sannindi að hreyfing gerir kraftaverk fyrir heilsuna þegar við eldumst. Vísir/Getty

Flestir vita að hreyfing bætir bæði andlega og líkamlega heilsu. Eldra fólk sem glímir við einhvers konar þunglyndi eða depurð ætti að setja daglega hreyfingu inn í lífsmunstur sitt sem forgangsverkefni.

Andleg og líkamleg heilsa hangir sterkt saman. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem þjáist af depurð eða öðrum andlegum sjúkdómum sé í meiri hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem eru duglegir að hreyfa sig.

„Við vitum að þunglyndi fer illa með heilsuna og sömuleiðis er vitað að gott andlegt form kemur í veg fyrir marga sjúkdóma, til dæmis hjarta- og æðasjúkdóma, og jafnvel ótímabæran dauða,“ segir Trude Carlsen í grein á vefmiðlinum forskning.no. Vitað er að margt eldra fólk þjáist af depurð eða þunglyndi í kjölfar breyttra félagslegra aðstæðna, til dæmis eftir fráfall maka þegar einmanaleiki knýr oft dyra.

En getur fólk sem er komið undir fimmtugt, jafnvel mun eldra, haft jákvæð áhrif á heilsu sína með því að byrja að hreyfa sig? Vísindamenn gerðu rannsókn á 15 þúsund miðaldra og öldruðum einstaklingum í heilbrigðisrannsókn í Norður-Þrændalögum í Noregi og voru niðurstöðurnar afar jákvæðar. Þeir sem byrjuðu reglulega daglega hreyfingu gátu dregið mikið úr þunglyndi og þar með komið í veg fyrir sjúkdóma og ótímabæran dauða. „Það er aldrei of seint að bæta heilsu sína,“ segir Carlsen.

Andlegt ástand þátttakenda var mælt með svörum við spurningum sem þeir fengu. Depurð eða þunglyndi er hægt að mæla með til dæmis spurningu um hvort fólk hlakki til einhvers, hvort það hafi ánægju af einhverju sérstöku, glími við svefnvandamál, orkuleysi, lélegt sjálfsmat og -álit og fleiri þætti. Carlsen bendir á að rannsóknin beindist að þeim sem hafa sýnt einhver einkenni depurðar eða þunglyndis. Góð og jákvæð andleg líðan fólks er lykillinn að löngu og heilbrigðu lífi. „Hamingjusamt og jákvætt fólk er heilsuhraustara en það sem er að kljást við lélegt sjálfsmat. Staðreyndin er sú að fólk sem hreyfir sig reglulega, svitnar smávegis tvisvar til þrisvar í viku getur gert kraftaverk með heilsu sína,“ segir Carlsen.

Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk ættu að hvetja eldra fólk til að hreyfa sig eftir bestu getu til að sporna við depurð og ýmsum sjúkdómskvillum. Þó ber að hafa í huga að eldra fólk á oft mjög erfitt með að tjá andlegar tilfinningar sínar. Með þar til gerðum spurningalista væri hægt að finna út andlega líðan. Gönguferðir utanhúss gætu til dæmis hentað mörgum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.