Þrjú mörk dæmd af West Ham í ótrúlegum seinni hálfleik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik liðanna fyrr í vetur.
Úr leik liðanna fyrr í vetur. vísir/getty

Fimm mörk voru skoruð í 1-1 jafntefli West Ham og Stoke í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. West Ham kom boltanum þrisvar í netið án þess að dæmt væri mark.

Eftir atvikalausan fyrri hálfleik kom Marko Arnautovic boltanum framhjá Jack Butland og í mark Stoke á 56. mínútu. Hann var hins vegar dæmdur rangstæður.

Aðeins tíu mínútum seinna skoraði West Ham aftur, og aftur var markið dæmt af vegna rangstöðu og aftur var það Arnautovic sem var sökudólgurinn. Í þetta skipti átti Edimilson Fernandes skotið í markið, en Arnautovic var í rangstöðu þegar skotið átti sér stað og dæmdi aðstoðardómarinn markið af.

Fyrsta löglega mark leiksins var gestanna í Stoke. Joe Hart varði frá Xherdan Shaqiri en frákastið lenti við fætur Peter Crouch aðeins nokkrum metrum frá marklínunni og framherjinn stóri lét tækifærið ekki framhjá sér fara. Stoke komið yfir á 80. mínútu.

Varamaðurinn Andy Carroll skoraði jöfnunarmark West Ham í sínum fyrsta leik síðan í janúar. Hann skoraði laglegt mark eftir sendingu Aaron Cresswell og jafnaði fyrir heimamenn á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

West Ham virtist hafa tryggt sér sigurinn í uppbótartíma þegar Javier Hernandez kom boltanum í netið en Michael Oliver dæmdi aukaspyrnu á Andy Carroll í undirbúningi marksins svo það fékk ekki að standa.

Ótrúlegum seinni hálfleik lauk með 1-1 jafntefli, vonbrigði fyrir Stoke sem þurfti á stigunum þremur að halda í fallbaráttunni, en stuðningsmenn West Ham eru að öllum líkindum á því að þeirra menn hafi verðskuldað að minnsta kosti eitt stig eftir að hafa komið boltanum í netið fjórum sinnum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.