Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Selfoss 28-30 | Selfoss í undanúrslit

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Selfyssingar hafa verið frábærir í vetur.
Selfyssingar hafa verið frábærir í vetur. vísir/eyþór
Stjarnan og Selfoss mættust í úrslitakeppni Olís deildar karla í handbolta í kvöld. Um var að ræða annan leik í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum og tryggði Selfoss sig áfram í undanúrslit með sigri en liðið vann einnig fyrri leikinn sem fram fór á Selfossi.

En Stjarnan byrjaði leikinn betur. Þeir skoruðu snemma leiks fjögur mörk úr hraðupphlaupum er Selfyssingar töpuðu boltanum trekk í trekk klaufalega. Lið Selfyssinga vann sig þó hægt og rólega inn í leikinn og var staðan í hálfleik, 16-13, Stjörnunni í vil.

Það dró svo til tíðinda eftir 37 mínútur er leikmaður Stjörnunnar, Bjarki Már Gunnarsson, fékk beint rautt spjald fyrir brot á Elvari Erni Jónssyni. Mikill hamagangur myndaðist eftir brotið og fengu tveir leikmenn, einn hjá hvoru liði, tveggja mínútna brottvísun.

Eftir þetta varð andrúmsloftið heldur betur rafmagnað er bæði lið byrjuðu að spila af enn meiri hörku en hana vantaði ekki heldur fyrir atvikið. Selfyssingar fóru að eflast enda er Bjarki Már líklega besti varnarmaður deildarinnar, allavega ef eitthvað er að marka tölfræði.

Liðin skiptust á að skora eftir að Selfyssingar loksins jöfnuðu og var ekki fyrr en á lokamínútum leiksins er gestirnir tóku endanlega fram úr Stjörnumönnum. Leikurinn endaði 28-30, Selfyssingum í vil, og Stjarnan því komið í snemmbúið sumarfrí.

Afhverju vann Selfoss?

Selfoss hefur skapað fína hefð í vetur þar sem liðið hefur oftar en ekki komið til baka í leikjum þar sem liðið hefur verið undir framan af. Í kvöld var engin undantekning. Stjarnan mætti af mikilli hörku sem Selfoss gat engan vegin staðið undir. Eftir því sem leið á leikinn fóru fleiri og fleiri Selfyssingar að stíga upp og að lokum voru gestirnir búnir að jafna Stjörnuna í formi baráttu og þá fengu gæðin sem skilja liðin að að skína í gegn.

Hverjir stóðu upp úr?

Hergeir Grímsson var hreint út sagt magnaður í liði Selfyssinga. Hann barðist eins og ljón allan leikinn og skapaði marktækifæri fyrir sig og aðra með baráttu sinni. Hann endaði leikinn með 10 mörk úr 13 skotum og þar af komu fjögur úr hraðupphlaupi.

Einnig má taka fyrir markmenn liðanna en þeir voru báðir í toppformi og vörðu oft á tíðum hreint út sagt stórkostlega. Sveinbjörn Pétursson hjá Stjörnunni steig upp í kvöld eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í vetur og hinum megin kom Helgi Hlynsson sterkur inn eftir hörmulega byrjun hjá Sölva Ólafssyni sem byrjaði í markinu.

Að lokum vill ég nefna Leó Snæ, hornamann Stjörnunnar, en hann var frábær og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann skoraði 7 mörk úr 10 skotum.

Hvað gekk illa?

Leikmenn Selfoss voru hörmulegir í byrjun leiks og misstu boltann klaufalega hvað eftir annað. Í lok leiks var það síðan sóknarleikur Stjörnunnar sem gekk illa.

Eftir því sem Selfyssingar spiluðu framar á vellinum gekk heimamönnum illa að færa boltann og á síðustu mínútum leiksins, þegar allt var undir, gekk hvorki upp né niður í sóknarleik Stjörnunnar.

Hvað gerist næst?

Tímabil Stjörnunnar er búið en Selfoss mun mæta FH-ingum í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Einar Jónsson stýrði Stjörnunni í síðasta skipti í kvöld en hann greindi frá því fyrr í vetur að hann yrði ekki áfram með liðið eftir tímabiliðVísir/Andri Marinó
Einar: Eru ekki allir dómar réttir?

„Þetta eru mikil vonbrigði. Það er leiðinlegt að detta út með þessum hætti. En ég er ánægður með strákana. Þeir lögðu allt í þetta,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar eftir grátlegt tap gegn Selfyssingum í kvöld, 28-30.

Á 37. mínútu var Bjarki Már Gunnarsson, leikmaður Stjörnunnar, rekinn útaf með beint rautt spjald. Aðspurður hvort þetta hafi verið vendipunktur í leiknum var Einar í engum vafa.

„Það segir sér sjálft að það var erfitt að missa hann. Besti varnarmaður deildarinnar og lykilmaður hjá okkur.“

Aðspurður hvort dómurinn hafi verið réttur var Einar ekkert að flækja hlutina. „Eru ekki allir dómar réttir?“

Er undirritaður ýtti eftir frekari svörum sagði Einar pent að hann nennti ekki að ræða dómgæsluna frekar. Hann sagði að hans menn yrðu frekar að líta í eigin barm.

„Við förum illa með of mikið af góðum færum sem voru dýr. Hlynur var að verja frábærlega í markinu hjá þeim. En við verðum að líta í eigin barm.“

Patrekur Jóhannessonvísir/eyþór
Patrekur: Náðum okkar striki á endanum

„Ég er ánægður með að vinna þennan leik. Í fyrri hálfleik þá vorum við slappir og sá eini sem mér fannst vera spila á eðlilegri getu var Hergeir,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, eftir sigur hans manna á Stjörnunni, 28-30.

„Mér fannst við vera hræddir og fáum svo á okkur fjögur mörk úr hraðupphlaupum strax í upphafi leiks. Vorum ekki líkir sjálfum okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Patrekur en hans menn byrjuðu leikinn herfilega illa en það var allt annað sjá til liðsins í seinni hálfleik.

„Í seinni hálfleik förum við að hreyfa okkur betur og gerum færri tæknifeila. Stjarnan voru beittari í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik náðum við okkar striki.“

Aðspurður hvort brottvísun Bjarka Má, leikmanni Stjörnunnar, hefði verið vendipunkturinn í leiknum var Patrekur ekki viss.

„Ég tek yfirleitt sirka 160 atriði fyrir þegar ég klippi þessa leiki. Hvort þetta eina atriði hafi haft þessi áhrif veit ég ekki.“

Selfoss mætir FH í undanúrslitum úrslitakeppninnar og kveðst Patrekur spenntur en að hann sé í raun ekki byrjaður að hugsa svo langt.

„Ég er ekkert byrjaður að spá í þeim. Ég veit að við spilum við FH en auðvitað leggst þetta bara vel í mig. Þetta er nýtt verkefni.“

Ari Magnús Þorgeirsson.Vísir/Andri Marinó
Ari Magnús: Stuðningsmenn Selfoss gáfu rauða spjaldið

„Þetta var hrikalega grátlegt. Vorum komnir fimm mörkum yfir og byrjuðum svakalega vel. Förum með forystu inn í hálfleik en þeir náðu að saxa á forskotið og sigra að lokum,“ sagði Ari Magnús Þorgeirsson, leikmaður Stjörnunnar eftir tap liðsins gegn Selfossi í kvöld.

Stjarnan byrjaði frábærlega og kom sér í góða stöðu til að vinna leikinn. Hann sagði að leikmenn liðsins hafi gefið allt inn á vellinum.

„Við áttum að gera það líka í fyrsta leiknum en það gekk ekki. Maður kemst rosalega langt bara á góðri baráttu. Öskra aðeins á menn og gefa fimmur. Þannig virkar handboltinn.“

Hann telur að háværir stuðningsmenn Selfyssinga hafi haft sitt að segja um rauða spjald Bjarka Má á 37. mínútu.

„Mér fannst stuðningsmenn Selfoss eiginlega láta dómarana gefa rautt spjald. Þeir voru auðvitað alveg öskrandi en mér fannst þetta ekki vera rautt,“ sagði Ari og sagði hitann í leiknum hafa verið hin eðlilegasti en mönnum var heitt í hamsi frá fyrstu mínútu.

„Það var hiti í þessu og bara hiti í öllum leikjum í 8-liða úrslitum. Fórum kannski ekki alveg í ÍBV-ÍR skalan en það er hasar í þessu.“

 

Hergeir Grímsson
Hergeir: Ég þurfti aðeins að kveikja í þessu

„Þetta var gaman. Þetta var auðvitað alveg geggjaður leikur. Fyrri hálfleikurinn var lélegur en við sýndum svo brjálaðan karakter í seinni hálfleik,“ sagði maður leiksins, Hergeir Grímsson, eftir sigur Selfoss á Stjörnunni, 28-30, í úrslitakeppni Olís deildar karla í handbolta.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var virkilega ósáttur með fyrri hálfleik Selfyssinga í kvöld og sagði að Hergeir hefði verið eini maður liðsins sem spilaði vel fyrstu 30 mínútur leiksins.

„Ég dett oft í einhvern gír og verð eitthvað brjálaður og það virkaði í dag. Fullt af Selfyssingum mættir og maður verður að öskra á þessa menn og koma þeim í gírinn,“ sagði Hergeir og bætti tók sérstaklega fram hversu magnaður stuðningur Selfyssinga var en þeir fjölmenntu svo sannarlega á völlinn.

„Það er auðvitað klikkað. Ég er eiginlega orðlaus.“

Selfoss hefur haft orð á sér að koma til baka í leikjum í vetur og í kvöld endurtóku þeir leikinn. Byrjuðu illa en enduðu sem verðskuldaðir sigurvegarar.

„Við erum með karakter í liðinu. Við vitum alveg hvað við getum. Stundum byrjum við illa en við vitum alltaf að við munum hrökkva í gírinn. Eins og við gerðum í dag.“

Á 37. mínútu fékk Stjörnumaðurinn, Bjarki Már Pétursson, beint rautt spjald fyrir brot á Elvari Erni Jónssyni. Hergeir og Sveinbjörn Pétursson, markmaður Stjörnunnar tveggja mínútuna brottvísun fyrir herlegheitin sem fylgdu á eftir en bókstaflega allt ætlaði að sjóða upp úr.

„Maður þurfti bara að kveikja aðeins í þessu. Þetta var orðið svolítið rólegt. Það virkaði. Ég var samt kannski full ágengur þarna,“ sagði Hergeir sem skoraði 10 mörk úr 13 skotum í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira