Erlent

Stefnir í að Orbán herði tökin í Ungverjalandi

Kosið er til þings í Ungverjalandi í dag. Allt stefnir í að Victor Orbán muni halda völdum.

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Fidesz, flokkur Victor Orbán forsætisráðherra, ber höfuð og herðar yfir aðra í skoðanakönnunum. Vísir

Ungverjar ganga til þingkosninga í dag þann 8. apríl og freistar Victor Orbán forsætisráðherra landsins þess að tryggja sér þriðja kjörtímabilið við völd. Kosningabaráttan hefur verið dramatísk, einkennst af njósnum, spillingu, lekum og falsfréttum. Það ræðst í dag hvort að Ungverjar kjósi að enn og aftur harðlínustefnu Victors Orbán í flóttamannamálum og haldi áfram að þróa Ungverjaland í átt að því sem Orbán kallar „ófrjálslynt lýðræðisríki.“

Skipta þessar kosningar einhverju máli?

Í stuttu máli já. Það kann að þykja ómerkilegt fyrir Íslendinga að skipta sér af kosningum í meðalstóru mið-Evrópuríki. Þessar kosningar eru enn einn áfanginn í þjóðernisvæðingu Evrópu. Stjórnmálaflokkar sem hampa þjóðríkinu, hafna alþjóðasamstarfi, ala á andúð á útlendingum og gefa lítið fyrir almenn mannréttindi og fjölmiðlafrelsi hafa undanfarið sótt í sig veðrið.

Íhaldsflokkurinn Fidesz hefur farið með völd í Ungverjalandi undanfarin átta ár. Visir/EPA

Fidesz, stjórnmálaflokkur Orbáns, hefur verið við völd undanfarin átta ár í Ungverjalandi og hefur þegar hrint í framkvæmd miklu á óskalista hinna evrópsku þjóðernisflokka. Ungverjaland er því módel fyrir framgang slíkra afla.

Vitnisburður um þetta er heimsókn Jarosław Kaczyński, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, til Búdapest á föstudaginn. Heimsókninni var varið í að styðja við kosningabaráttu Orbáns og sagði Kaczyński í ræðu á föstudaginn að Ungverjaland gæti verið leiðarljós Evrópu. Kaczyński er nú formaður pólska stjórnarflokksins Lög og réttlæti, en Kaczyński er stundum kallaður hinn raunverulegi leiðtogi Póllands. Undir handleiðslu hans og annarra leiðtoga Laga og réttlætisflokksins hefur Pólland einmitt fetað svipaða braut og Ungverjaland. Nýleg dæmi eru tilraunir stjórnarmanna til að skerða rétt kvenna til þungunarrofs í öllum tilfellum og bann við því að saka Pólverja um þátttöku í helförinni.

Kosningarnar skipta því máli því áfram getur Ungverjaland verið líkan fyrir þjóðernissinnuð öfl Evrópu. Orbán hefur undanfarin ár hert tök sín á landinu, breytt kosnignakerfinu til að hygla eigin flokki, dregið úr sjálfstæði dómstóla og gert ríkisfjölmiðlana að áróðursmiðstöð stjórnvalda auk þess sem einkamiðlar hafa verið færðir vildarvinum á silfurfati.

Orbán hefur verið þyrnir í síðu Evrópusambandsins en nú horfa ríki mið- og austur Evrópu til stjórnarstefnu hans. Því geta þessar kosningar verið nokkuð þýðingarmiklar fyrir strauma og stefnur innnan Evrópusambandsins.

Hverjir eru í boði?

Fidesz
Stjórnarflokkurinn Fidesz hefur setið um stjórnartaumana í Ungverjalandi frá stórsigri flokksins árið 2010 og ber höfuð og herðar yfir aðra flokka í fylgi. Flokkurinn er íhaldssamur þjóðernisflokkur sem stendur vörð um kristin og ungversk gildi. Flokkurinn og leiðtogi hans, Victor Orbán, hafa verið til trafala innan Evrópusambandsins enda hefur flokkurinn takmarkaða trú á því verkefni.

Flokksleiðtogarnir Gergely Karácsony (Sósíalistar), Victor Orbán (Fidesz), og Gabór Vona (Jobbik) berjast um hygli kjósenda. Mynd/Samsett

Flóttamannamál hafa verið áberandi í Ungverjalandi en flokkurinn hefur tekið upp harðlínustefnu gegn flóttamönnum og hælisleitendum, ekki tekið upp flóttamannakvóta Evrópusambandsins og sett upp vegg á landamærunum og hert landamæragæslu.

Jobbik
Stjórnarandstöðuflokkurinn Jobbik er jafnvel enn harðari í stefnu sinni gagnvart útlendingum. Flokkinn má kalla öfga-þjóðernisflokk sem leggur áherslu á velferð Ungverja umfram annarra. Margir hafa sakað flokkinn um nýnasisma og gyðingaandúð en flokksmenn hafa ítrekað komið sér í klandur fyrir hatursfull ummæli í garð gyðinga.

Á tímabili rak flokkurinn einkaherdeild Magyar gárda eða ungverska varðsveitin. Varðsveitarmennirnir klæddust einkenningsbúningum, þjónuðu sem einkalögreglulið flokksins, marséruðu um götur borga og bæja og stöku sinnum beittu sveitarmenn roma fólk ofbeldi.

Sveitin hefur í dag verið leyst upp en stofnandi hennar Gabór Vona er nú formaður Jobbik. Frá stofnun hefur flokkurinn reynt að milda ímynd sína og skilgreinir sjálfan sig í dag sem hefðbundnum íhaldsflokk.

Sósíalistaflokkurinn
Nærri allan fyrsta áratug þessarar aldar var Ungverjalandi stjórnað af sósíalistum. Í dag er ungverski sósíalistaflokkurinn eins og skugginn af sjálfum sér, dvergvaxinn stjórnarandstöðuflokkur gagnvart stjórnarflokknum Fidesz.

Áður var flokkurinn hluti af kosningabandalagi vinstri flokka sem hrundi þó í sundur í kjölfar kosninganna 2014. Landslag vinstristjórnmála í Ungverjalandi er afar brothætt og margklofið líkt og þekkist hér á Íslandi. Sósíalistaflokkurinn er afar frábrugðinn áðurnefndu flokkunum tveimur.

Flokkurinn hampar Evrópusamstarfi, er mildari í garð flóttamanna og hælisleitenda og hafnar róttækri ungverskri þjóðernishyggju sem hefur verið ríkjandi í stjórnmálunum. Gergely Karácsony hefur verið útnefndur forsætisráðherraefni flokksins.

Aðrir
Áðurnefndir flokkar eru þeir þrír stærstu samkvæmt skoðanakönnunum. Þrír flokkar til viðbótar eru í stjórnarandstöðu og mælast mun smærri í skoðanakönnunum. Græningjaflokkurinn LMP, frjálslynda aflið Lýðræðisbandalagið og Együtt eða Samstaða sem er frjálslyndur jafnaðarmannaflokkur.

Allir flokkarnir skipa sér í fylkingu með Sósíalistaflokknum, eru til vinstri í stjórnmálum, styðja virka Evrópusamvinnu og hafna róttækri þjóðernishyggju.

Hver eru málefnin?

Yfirtaka múslima á Ungverjalandi og alþjóðlegt samsæri George Soros til að grafa undan stoðum Ungverjalands er á meðal þess sem hæst hefur borið í kosningunum. Efnahagsmál ættu að vera ofar á stefnuskránni þar sem hagvöxtur er undir væntingum og erlendar fjárfestingar eru að dragast saman.

Evrópusambandið gæti virkjað sjöundu grein sambandssáttmálans gagnvart Ungverjalandi sem myndi svipta þá kosningarétti í leiðtogaráðinu og hefði í kjölfarið mikil áhrif á fjárfestingar Evrópusambandsins í Ungverjalandi.

Þrátt fyrir tvísýna tíma í efnahagsmálum landsins er efnahagsmál varla að finna í kosningastefnuskrám flokkanna.


George Soros og Victor Orbán hafa um árabil eldað grátt silfur. Mynd/Samsett

Raunar hefur mest púður farið í persónulegt stríð Victors Orbán og George Soros, Ungversk-Ameríska fjárfestisins. Hann hefur einnig komið fyrir í íslenskri stjórnmálaumræðu en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði Panamaskjölin og þau mál sem á eftir fylgdu hafi runnið undan rifjum Soros og öðrum.

„Þessi aðför sem hafði verið í undirbúningi í sjö mánuði í nokkrum löndum og beitt þessum gögnum sem Soros vogunarsjóðskóngur hafði keypt og gat notað að vild,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali á Útvarpi Sögu fáeinum mánuðum eftir Panamalekann. Andúð Victors Orbán á George Soros er ekki svo ósvipuð. Hann hefur sakað Soros um að beita fjármálaveldi sínu til að grafa undan stjórnvöldum og Ungversku þjóðinni. Við fall kommúnísmans í Ungverjalandi voru þeir Orbán og Soros reyndar bandamenn. Orbán ungur frjálslyndur aðgerðarsinni og Soros fjárhagslegur bakhjarl hans.

Hatrammasta tilfellið í deilum þeirra Orbán og Soros er vafalaust þegar ungverska ríkisstjórnin gerði tilraun til að loka Mið-Evrópska háskólanum í Búdapest, en skólinn er fjármagnaður af Soros. Orbán sagði skólann stangast á við ný lög um menntastofnanir í landinu. Flestir eru þeirrar skoðunar að aðförin að skólanum hafi verið lítt dulbúin tilraun til að ná sér niður á Soros og liður í því að gera Ungverjaland að „ófrjálslyndu lýðræðisríki“. Háttsettir menn í stjórnarflokknum Fidesz höfðu nefnilega talið skólann eina helstu gróðrastíu frjálslyndrar hugsunar í Ungverjalandi.

Þessi deila hefur tekið yfir alla stjórnmálaumræðu í Ungverjalandi. Ekki er óalgengt að Soros bregði fyrir í kosningaáróðri. Gott dæmi er veggspjald sem spratt upp víða um Ungverjaland þar sem Soros breiðir faðminn yfir leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Hvert og eitt þeirra með vírklippur í hendi og rífa niður landamæragirðingar Ungverjalands til að flóttamenn, rómafólk, múslimar, frjálslyndir og annar óþjóðalýður geti tekið yfir landið.

„Í sameiningu munu þau rífa niður landamærin,“ stendur á kosningaspjöldum víða um Ungverjaland. Georges Soros breiðir út faðminn og leiðtogar stjórnarandstöðunnar munda vírklippur.

Annað dæmi um hræðsluáróður sem hefur gengið um landið eru bréf sem borgarar fá send heim til sín. „Við erum að leita að ódýru íbúðarhúsnæði fyrir Mohamed Hassan og fjölskyldu. Fjölskyldumottó: Allah Akbar!“ stóð í sendibréfinu og með fylgdi mynd af fjölskyldu í herklæðum vopnuðum hríðskotarifflum.

Orbán og stuðningsmenn líta á sig sem framvarðasveit gegn framandi innrásaröflum sem verja ungversk gildi. Á ungverskum Facebook síðum gengur nú til dæmis myndband þar sem Orbán er settur í líki Þjóðans konungs úr Hringadróttinssögu. Þar fer hann fyrir þjóðhollum Ungverjum og ræður niðurlögum Soros og stjórnarandstöðunnar sem eru í líki innrásarhers orkanna frá Mordor sem hafa lagt umsátur um Ungverjaland.

Hver mun vinna?

Allar líkur eru á að Orbán muni tryggja sér næstu fjögur árin við völd. Flokkur hans Fidesz mælist með tæplega 50 prósent atkvæða og kosningakerfið í Ungverjalandi virkar á þá vegu að það magnar sigur þess flokks sem fær flest atkvæði.

Líklega mun þjóðernisflokkurinn Jobbik vera næst stærsti flokkurinn með um 17,6 prósent fylgi og þar á eftir kemur Sósíalistaflokkurinn með 12,4. Aðrir flokkar mælast með heldur minna fylgi.


Lítið getur ógnað yfirburðarstöðu Orbáns og Fidesz. Jafnvel þó að öll stjórnarandstaðan myndi koma sér saman um myndun stjórnar væri erfitt að yfirbuga Fidesz og þar að auki er ólíklegt að vinstriflokkarnir og Jobbik gætu komið sér saman um nokkurn hlut.

Ef að kosningaspár ganga eftir er líklegt að Fidesz muni halda áfram að breyta stjórnarskrá landsins til að herða enn frekar tök sín á samfélaginu. Orbán myndi halda áfram að þjóna sem forætisráðherra og mun verða þjóðernisöflum Evrópu frekari innblástur á komandi árum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.