Innlent

Segir það galið að gefa eftir tekjustofna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir að ríkisstjórnin hefði þurft að forgangsraða betur.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir að ríkisstjórnin hefði þurft að forgangsraða betur. Vísir/ernir

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina hafa gleymt hópum eins og ungum foreldrum, öldruðum og öryrkjum þegar hún ráðstafaði fjármunum þjóðarinnar í fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

„Þeir [hóparnir] eru alveg gleymdir í þessu plaggi og það er það sem við erum að gagnrýna; í fyrsta lagi að það sé ekki aflað tekna til að ráðast í þær nauðsynlegu framkvæmdir og aðgerðir sem þarf að fara í og öðru lagi er forgangsröðunin ekki í þágu þeirra sem mest þurfa á að halda í dag,“ segir Logi.

Logi var, auk Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra, og Þorsteins Víglundssonar, varaformanns Viðreisnar, gestur Heimis Más Péturssonar í þjóðmálaþættinum Víglínunni. Nýkynnt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára rædd í þaula. Þingmennirnir höfðu skiptar skoðanir á ágæti hennar.

Logi vekur athygli á hópum sem bera skarðan hlut frá borði. „Við erum með fimmtíu prósent allra launamanna sem eru undir sex hundruð þúsund krónum á mánuði, við erum með þrettán, fjórtán, prósent sem eru með undir þrjú hundruð þúsund krónum á mánuði,“ sagði Logi sem var þess fullviss að þingmennirnir sem sátu við hlið væru ekki færir um að lifa á þrjú hundruð þúsund krónum á mánuði.

„Við erum að horfa upp á harðduglegar, venjulegar fjölskyldur, venjulegt fólk sem er í tveimur, til þremur vinnum til að reyna að ná endum saman. Þetta fólk má ekki við minnstu áföllum að þá lendir það inn í vítahring og á endanum jafnvel í ógöngum. Það er galið í rauninni að gefa eftir tekjustofna núna með þeim hætti sem er verið að gera,“ segir Logi sem hefði heldur kosið að fjármunum hefði verið ráðstafað með þeim hætti að að hækka barna-og/eða vaxtabætur, grunnlífeyri aldraða og öryrkja.

Í myndspilaranum hér að neðan er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.