Erlent

Obama og Paul McCartney sýndu ungmennunum samstöðu

Kjartan Kjartansson skrifar
McCartney missti vin sinn John Lennon í skotárás fyrir tæpum fjörutíu árum.
McCartney missti vin sinn John Lennon í skotárás fyrir tæpum fjörutíu árum. Vísir/AFP
Ganga hundruð þúsunda manna fyrir hertri skotvopnalöggjöf í Bandaríkjum í gær sem ungmenni sem lifðu af skotárás í framhaldsskóla á Flórída skipulögðu hefur vakið mikla athygli. Barack Obama, fyrrverandi forseti, og Bítillinn Paul McCartney eru á meðal þeirra sem hafa lýst aðdáun sinni og stuðningi við ungmennin.

Stærsta gangan undir yfirskriftinni „Göngum fyrir líf okkar“ [e. March for Our Lives] fór fram í Washington-borg í gær en samstöðugöngur voru farnar víðar um Bandaríkin og í fleiri löndum, þar á meðal í Reykjavík.

Nokkur ungmenni úr Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland á Flórída þar sem vopnaður maður skaut sautján nemendur og starfsmenn til bana á Valentínusardag voru á meðal þeirra sem ávörpuðu gönguna í Washington-borg.

Einn þeirra sem tók þátt í göngunni var breski tónlistarmaðurinn Paul McCartney sem gerði garðinn frægan með Bítlunum á árum áður. Hann var klæddur bol sem á stóð „Við getum bundið enda á byssuofbeldi“.

„Einn bestu vina minna var drepinn í byssuofbeldi á þessum slóðum þannig að þetta er mér hjartans mál,“ sagði McCartney við CNN-fréttastöðina um ástæðu þess að hann tók þátt. Hann hafi aðeins viljað sýna fólkinu stuðning sinn.

Vísað McCartney þar til Johns Lennon, félaga síns úr Bítlunum, sem féll fyrir hendi byssumanns í desember árið 1980.



Gríðarlegur mannfjöldi kom saman í Washington-borg í gær til að mótmæla byssuofbeldi og krefjast aðgerða stjórnvalda. Ungmenni skipulögðu gönguna.Vísir/AFP
Á Twitter lýsti Obama aðdáun sinni og eiginkonu hans á ungmennunum.

„Michelle og ég erum svo innblásin af þessu unga fólki sem lét göngurnar í dag verða að veruleika. Haldið þið áfram. Þið leiðið okkur áfram. Ekkert getur staðið í vegi milljóna radda sem kalla á breytingar,“ tísti fyrrverandi forsetans.

Ekki voru þó allir eins hrifnir af framtakssemi ungmennanna. Þannig hæddist þáttastjórnandi á sjónvarpsstöð skotvopnaeigendasamtakanna NRA að þeim. Sagði hann að „enginn myndi þekkja nöfnin ykkar“ ef vopnaður maður hefði verið í skólanum til að verjast árásarmanninum. Íhaldsmenn í Bandaríkjunum hafa margir sakað ungmennin um að vera handbendi hópa sem berjast fyrir hertum skotvopnalögum.

NRA hefur talað fyrir því að vopna kennara til að bregðast við fjölda skotárás í skólum. Sú hugmynd hefur fengið góðar undirtektir hjá Donald Trump forseta.

Hópur byssueigenda í Texas stóð fyrir gagnmótmælum í gær. Þar á meðal þessi drengur sem hélt á skilti sem á stóð að ekki skuli nota dauð börn til að þrýsta á um hertra reglur um byssur.Vísir/AFP

Tengdar fréttir

Lifði af skotárásina og þjarmaði að þingmanni í sjónvarpssal

Cameron Kasky, einn þeirra nemenda Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans sem hafa verið hvað háværastir í baráttu sinni fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum, gekk hart að öldungardeildarþingmanninum og Repúblikananum Mark Rubio í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×