Körfubolti

Sextándi oddaleikur Friðriks Inga á þjálfaraferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson
Friðrik Ingi Rúnarsson Vísir/Ernir

Ef einhver þekkir allar hliðar á oddaleikjum í úrslitakeppni íslenska körfuboltans þá er það þjálfari Keflvíkinga.

Haukar taka á móti Keflavík á Ásvöllum í kvöld í hreinum úrslitaleik um sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta. Leikurinn hefst klukkan 19.15 á Ásvöllum og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Keflvíkingar tókst að jafna metin í einvíginu með tveimur sigurleikjum í röð en Haukarnir, sem töpuðu aldrei meira en tveimur leikjum í röð í deildarkeppninni, búa að því núna að vera á heimavelli.

Mesti reynsluboltinn í kvöld er hinsvegar við stjórnvölinn hjá Keflavíkurliðinu.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkurliðsins, þekkir nefnilega þjálfara best, að vera í oddaleik í úrslitakeppni.

Leikurinn í kvöld verður sextándi oddaleikur hans sem þjálfari í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla.

Það eru 27 ár síðan að Friðrik Ingi stýrði í liði í fyrsta sinn í oddaleik og það var úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn árið 1991.

Friðrik Ingi og lærisveinar hans í Njarðvík unnu þá Keflavík og tryggðu sér titilinn. Friðrik var þá enn aðeins 22 ára gamall en búinn að gera lið að Íslandsmeisturum á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari.

Friðrik Ingi fór ekki í oddaleik í fyrra en var þá búinn að fara í gegnum tvo oddaleiki á fjórum af síðustu fimm tímabilum sínum sem þjálfari í úrvalsdeildinni.

Tímabilin 1997-98, 2002-03, 2003-04, 2014-15 og 2015-16 þá fór Friðrik Ingi í tvo oddaleiki með sínum liðum.

Friðrik Ingi hefur unnið 9 af 15 oddaleikjum sínum á þjálfaraferlinum og gæti því náð tíunda sigrinum í kvöld.

Hann horfir til þess að í öllum fimm oddaleikjum hans í átta liða úrslitum þá hefur hann fagnað sigri. Hann gerði það með Njarðvík 1998, með Grindavík 2003 og 2004 og svo með Njarðvík 2015 og 2016.

Kollegi Friðriks Inga hjá Haukum, Ívar Ásgrímsson, er á leiðinni í sinn fimmta oddaleik í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla og hefur tvisvar af fagnað sigri í þessum fjórum leikjum.


Oddaleikir Friðriks Inga í úrslitakeppni karla og sigurhlutfall:

Átta liða úrslit - oddaleikir um sæti í undanúrslitum
5 leikir - 5 sigrar - 100% sigurhlutfall

Undanúrslit - oddaleikir um sæti í lokaúrslitum
8 leikir - 3 sigrar - 38% sigurhlutfall

Lokaúrslit - oddaleikir um Íslandsmeistaratitilinn
2 leikir - 1 sigur - 50% sigurhlutfall

Samtals - allir oddaleikir
15 leikir- 9 sigrar - 60% sigurhlutfall


10 oddaleikir með Njarðvík (5 sigrar - 50% sigurhlutfall)
5 oddaleikir með Grindavík (4 sigrar - 80% sigurhlutfall)
Fyrsti oddaleikur hans með KeflavíkAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.