Menning

Framtíðarborgin Reykjavík: 2013

Stefán Pálsson skrifar
Stefán Pálsson skrifar um framtíðardrauma sjöunda áratugarins.
Stefán Pálsson skrifar um framtíðardrauma sjöunda áratugarins.

„Hvar er flugbíllinn sem mér var lofað?“ – Þessa spurningu og aðrar í sama dúr mátti víða heyra þann 21. október árið 2015. Tilefnið var rúmlega aldarfjórðungs gömul táningamynd, Aftur til framtíðar 2, frá árinu 1989. Í henni fór aðalsöguhetjan fram til ársins 2015, nánar tiltekið til 21. október. Sú veröld sem þar birtist reyndist um margt ólík en jafnframt um margt svipuð því sem varð í raun og veru.

Á öllum tímum hefur fólk skemmt sér við að reyna að sjá fyrir framtíðina. Með framfaratrúnni sem grafið hefur um sig í vestrænni menningu síðustu alda, hafa slíkar framtíðarsýnir oftar en ekki einkennst af spádómum um nýjungar í tækni og vísindum sem umbylta munu daglegu lífi. Sjaldnast ganga framtíðarsýnir þessar eftir, enda eru þær kannski fyrst og fremst heimildir um samtíma sinn. Þannig má lesa framtíðarspádóma fortíðarinnar til að fræðast um hvaða væntingar fyrri kynslóðir höfðu til tækni og vísinda síns tíma.

Árið 1963 efndi Lesbók Morgunblaðsins til ritgerðasamkeppni ungmenna þar sem lýsa skyldi Íslandi og þá sérstaklega Reykjavík eftir fimmtíu ár. Tvær hlutskörpustu ritgerðirnar voru svo birtar í barna- og unglingakálfinum „Lesbók æskunnar“. Önnur var eftir Jón Axel Egilsson en hin eftir systurnar Ragnheiði og Svölu Karlsdætur.

Efnistökin í ritgerðunum voru nokkuð ólík. Þannig varði Jón Axel nokkrum tíma í að útskýra líkurnar á að mannkynið fengi aldrei að líta árið 2013 vegna ýmissa ógna. Kúbudeilan var nýafstaðin, þar sem risaveldin fóru hvað næst því að grípa til kjarnorkuvopna. Það hefði því hljómað nánast hrokafullt að reikna ekki með möguleikanum á að mannkynið myndi tortíma sjálfu sér með kjarnasprengjum innan fárra ára.

Fleiri ógnir gátu sett strik í reikninginn. Þannig var von á halastjörnu Halleys árið 1985 og ekki talið útilokað að hún rækist á Jörðina og skyti henni jafnvel af sporbraut sinni með hörmulegum afleiðingum fyrir allt líf. Eins gæti hinn eitraði hali hennar spillt lofthjúpnum og þar með drepið allt kvikt.

Loftslagsógnir voru ungmennum einnig hugleiknar árið 1963, þótt með nokkuð öðrum hætti væri en nú um stundir. Sögulegar sveiflur í hitastigi Jarðar voru þekktar og benti Jón Axel á að vísindamenn sæju ýmis teikn um að ný ísöld kynni að vera í uppsiglingu. Ekki þyrfti annað en að drægi úr sólgosum til að valda gríðarlegum veðrabrigðum á Jörðu, þar sem heimskautaís pólanna ryddist fram eins og ógnandi syndaflóð með tilheyrandi eyðileggingu.

Þrátt fyrir varnaglana voru ungmennin full bjartsýni um framtíðina. Ógnin um kjarnorkustríð var vissulega fyrir hendi, en kjarnorkan var þó ótvírætt talin framtíðarorkugjafinn sem umbylta myndi íslensku samfélagi og raunar heiminum öllum.

Blómleg landbúnaðarhéruð

Með kjarnorku, tölvutækni og erfðavísindi að vopni myndu Íslendingar framtíðarinnar verða sjálfum sér nægir í matvælaframleiðslu. Búið yrði að rækta upp allt Suðurlandsundirlendið, sem og sandana á suðurströndinni. Þar yrðu miklir kornakrar sem gæfu af sér svo ríkulega uppskeru að unnt væri að flytja korn úr landi. Hvers kyns grænmeti og ávexti mætti einnig rækta þar í sérstökum gróðurhúsum, en með tilstilli kjarnorkunnar mætti tryggja fullkomið hita- og rakastig fyrir hverja einustu plöntutegund. Gróðurhúsin yrðu jafnframt laus við hvers kyns skordýr og bakteríur, auk þess sem grænmetið yrði allt sótthreinsað fyrir niðursuðu áður en það færi á borð neytenda.

Mjólkur- og kjötframleiðsla myndi einnig breytast með nýrri tækni, þar sem búsmalinn dafnaði í sífelldu sumri undir plasthimni og sterkum rafmagnsljósum. Sjálfvirkar rafeindaheilastýrðar vélar myndu sjá um mjaltir og til Reykjavíkur lægju tvær leiðslur – sú sverari flytti mjólk en sú mjórri leiddi rjóma til höfuðborgarinnar. Nýjar húsdýrategundir yrðu komnar fram og ræktaðar, en þó væru vísindin farin að fikra sig áfram með að rækta kjöt og mjólk án þess að dýr þyrftu að koma þar að máli.

Ylrækt átti líka að dafna í framtíðarlandinu. Þær Ragnheiður og Svala sáu fyrir sér að Blómamiðstöð Íslands risi í Hveragerði með umfangsmikilli skrautblómaræktun. Raunar voru ungmennin öll sannfærð um að græn svæði, trjágróður og blóm yrðu áberandi í manngerðu umhverfinu. Þannig yrði samgöngum ýmist komið ofan í jörðina með neti jarðganga eða upp í loftið. Reyndar voru höfundarnir ekki sammála um hvort fljúgandi bílar yrðu algengasta fjölskyldufarartækið eða smáflugvélar og þyrlur.

Ferðamannaiðnaður yrði í blóma á Íslandi árið 2013, enda mannkynið allt meira og minna á ferð og flugi. Ferðalög til útlanda yrðu skyldunámsgrein í skólum og því í nógu að snúast fyrir Flugfélag Íslands og Loftleiðir sem státuðu af tveggja hæða kjarnorkuknúnum millilandaflugvélum með sætum fyrir allt að 200 farþega. Útlendingar kæmu hingað í stórum stíl, ekki hvað síst til að njóta aðstöðunnar í ferðamannaþorpinu í Kerl­ingar­fjöllum allan ársins hring. Flugvöllurinn væri loksins farinn úr Vatnsmýrinni, en hið nýja flugvallarstæði lægi utan af Álftanesi og upp í Vífilsstaðahraun, með Reykjanesbrautina í göngum neðanjarðar.


Þröng á þingi

Kjarnorkuflugvélarnar leystu þó ekki skipasamgöngurnar af hólmi. Risaskipasmíðastöð ríkisins í Vatnagörðum sá um byggingu risavaxinna farþegaskipa, sem í raun mætti líkja við svífandi borgir með allri þjónustu – „svífandi“ er líklega rétta orðið, þar sem farartæki þessi snertu ekki hafflötinn heldur rynnu áfram á loftpúða. Öðru máli gegndi um fiskiskip, en Íslendingar treystu enn að miklu leyti á sjávarútveg.

Hefðbundin veiðarfæri heyrðu sögunni til, en þess í stað væri fiskitorfunum safnað saman með rafmagnsbylgjum og þær jafnvel lamaðar áður en fiskurinn væri hreinlega ryksugaður um borð og verkaður með tölvum og vélmennum áður en komið væri í höfn. Raunar væru það helst uppsjávarfiskarnir sem sækja þyrfti á miðin, því í hverjum firði umhverfis landið væri fiskeldi í sjókvíum.

Ekki veltu ungmennin sér mikið upp úr því hvernig stjórnarfarinu yrði háttað í Íslandi framtíðarinnar. Þó gátu Ragnheiður og Svala þess að 170 þingmenn sætu á Alþingi, enda Íslendingar orðnir hálf milljón talsins. Um helmingurinn byggi í Reykjavík og ættu 60 borgarfulltrúar sæti í hinu nýja og glæsilega ráðhúsi. Af þeim væri fjórðungurinn konur.

Umræður um hugsanlega aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu eða jafnvel hinu nýstofnaða EFTA höfðu verið fyrirferðarmiklar í byrjun sjöunda áratugarins. Árið 2013 var hins vegar búið að koma á laggirnar Efnahagsbandalagi Norður­landa, sem var umsvifamikið í rekstri kjarnorkuvera á Íslandi – einkum á gamla herstöðvarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Ekki virtust höfundar ritgerðanna hafa þungar áhyggjur af átökum þjóðríkja í framtíðinni. Ef til vill hafði tækninni tekist að bæta skilning milli samfélaga, í það minnsta gat almenningur vandræðalaust fylgst með sjónvarpsútsendingum hvaðanæva úr veröldinni, sem tölvur þýddu úr einu tungumálinu á annað í rauntíma. Á hverju heimili mátti finna „þrívíddarlitasjónvörp með Hi-Fi-elektrónískum stereóhljómi“.

Ekki höfðu skipulagsyfirvöld Reykjavíkur heyrt um þéttingu byggðar. Miðbærinn var raunar fullur af skrifstofuturnum, en allur þorri fólks bjó í húsum á einni hæð með upphituðum og raflýstum garði. Flest hversdagsleg heimilisstörf voru komin í hendur vélmenna, hvort heldur sem um var að ræða að ryksuga gólfin eða slá grasblettinn. Ísskápatækninni hafði fleytt fram og mátti geyma matvæli svo árum skipti í kæli. Sífellt kjörbúðaráp var óþarft, enda fylltu vélrænir búðarsendlar á ísskápa viðskiptavina meðan heimilisfólk var í vinnu eða skóla. Uppþvottavélar voru vitaskuld í hverju eldhúsi, sem hreinsuðu öll búsáhöld á augabragði með hátíðnibylgjum og röðuðu að sjálfsögðu aftur upp í skáp.

Öll töldu ungmennin að framtíð menntunar fælist í hljóðupptökum sem leiknar yrðu af plötum eða hljóðsnældum að næturlagi, þannig að námsmaðurinn vaknaði fullnuma að morgni. Hvers kyns kvikmyndir yrðu svo fyrirferðarmiklar í kennslunni. Ekki virtust hin nýju tæki þó hrófla mikið við kynjahlutverkunum. Þrátt fyrir öll rafeindaheilastýrðu vélmennin á heimilinu voru konur ennþá húsmæður og langskólanámið virtist heldur koma í hlut drengjanna. Ungar stúlkur gátu þó fært sér tæknina í nyt, til dæmis með því að lesa prjónamynstur inn á míkrófón og láta fullkomnar prjónavélar sjá um allt erfiðið og jafnvel gera hnappagöt og festa tölur jafnóðum.

Skemmtanalífið í Reykjavík ársins 2013 var fjörlegt. Dansmenntir þjóðarinnar höfðu tekið miklum framförum, með þeim afleiðingum að kynslóðirnar sameinuðust á dansleikjum, sem höfðu ólíkt meiri menningarbrag en gömlu fylleríssamkomurnar á Hótel Borg áður fyrr. Þótt vegur bindindis færi vaxandi kusu sumir að neyta áfengis, en þá með því að anda að sér alkóhólmettaðri gufu.

Kirkjuferðir höfðu óvænt tekið mikinn kipp í vinsældum og kom þar tvennt til. Annars vegar var farið að útbúa kirkjur með mýkri og þægilegri sætum en hins vegar höfðu tónlist og söngvar fengið veigameira hlutverk í messum, þar sem söfnuðurinn allur gat tekið undir. Kom sér því vel að búið var að reisa nýja og stærri dómkirkju í miðbænum úr plasti og gleri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.