Innlent

Víglínan: Óvissa á vinnumarkaði og endurnýjaður Sjálfstæðisflokkur í borginni

Þórdís Valsdóttir skrifar

Í dag eru fjórir dagar þar til um sextíu formenn aðildarfélaga Alþýðusambandsins koma saman til fundar og ákveða hvort kjarasamningum hundrað þúsund karla og kvenna á almennum vinnumarkaði verður sagt upp eða þeir framlengdir út árið. Miðstjórn ASÍ komst að þeirri niðurstöðu í vikunnu að forsendur samninganna væru brostnar en forsendunefnd aðila vinnumarkaðarins er ætlað að meta þetta og er enn að störfum.

Samtök atvinnulífsins meta stöðuna með allt öðrum hætti en ASÍ og minnir á að kaupmáttur hafi aukist um 20 til 25 prósent á samningstímanum. Stjórnvöld leggja mikið upp úr því að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði og því má reikna með að ríkisstjórnin gefi frá sér einhverja yfirlýsingu með fyrirheitum um aðgerðir til að freista þess að kjarasamningum verði ekki sagt upp.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kemur í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns til að ræða þessi mál, nýlega sölu á hlut ríkisins í Arion banka og fleira.

Á fimmtudag opinberaði Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík framboðslista sinn fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Það er óhætt að tala um algera endurnýjun á listanum eða hreinsun eins og andstæðingar flokksins munu sjálfsagt kalla það og jafnvel þeir innan flokksins sem ekki kunna að meta breytingarnar.

Eyþór Arnalds, nýr oddviti flokksins í borginni,  ætlar sér stóra hluti í kosningunum í maí. Hann er með þræði víða í viðskiptalífinu, meðal annars í fjölmiðlum, sem hann segist ætla að slíta sig frá. Hann mætir í Víglínuna til að ræða þessi mál og möguleika Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum en flokkurinn hefur meira og minna verið í minnihluta í borgarstjórn allt frá árinu 1994.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.