Innlent

Borgarbúar vilja ávaxtatré, kalda potta og þrektæki

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Ávaxtatré, kaldir pottar og ungbarnarólur eru á meðal sjötíu og sex verkefna sem borgarbúar kusu til framkvæmda á þessu ári. Borgarráð samþykkti í vikunni að bjóða út fjölbreyttar framkvæmdir fyrir fjögur hundruð og fimmtíu milljónir króna.

Rúmlega ellefu þúsund borgarbúar kusu á milli framkvæmda hugmynda sem bárust vefnum Betri Reykjavík. Sjötíu og sex verkefni hlutu brautargengi.

Borgarstjóri segir íbúana þekkja best hverfin sín og úrbótaþarfirnar.

Dagur B. Eggertsson segir köldu pottana hafa slegið í gegn.Vísir/Ernir
„Með árunum þá fjölgar yndisreitum sem einhver á hugmyndina að og sér síðan verða að veruleika. Það er gaman að sjá hugmyndaauðgina sem í þessu felst og á hverju ári er alltaf eitthvað sem slær í gegn sem hefur ekki sést áður.“ Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Óskir borgarbúa fela meðan annars í sér að á þessu ári verða settir upp tveir kaldir pottar og ein vaðlaug. Ávaxtatré fyrir vegfarendur verður gróðursett í Háaleitishverfinu. Í nær öllum hverfum verða gerðar úrbætur á leikvöllum með uppsetningu á nokkrum ungbarnarólum. Þá verður líkamsræktaraðstöðu með þrektækjum komið upp utandyra í þremur hverfum.

„Já, það var alveg áberandi að þar sem vantar kalda potta í laugarnar þar slá þeir alveg í gegn. Nú fáum við kalda potta í Árbæjarlaug og Breiðholtslaug. Síðan koma fleiri leiksvæði í Grafarvogslaug, þarna eru ávaxtatré og viðbætur inn á Klambratún og í Hljómskálagarð þannig að það úir og grúir af skemmtilegum tillögum í ár,“ segir Dagur.

Á vef Reykjavíkurborgar er hægt að lesa sér til um allar þær tillögur sem hlutu brautargengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×