Handbolti

Óvíst hvort Rakel snúi aftur á völlinn: „Sný aldrei alveg baki við handboltanum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Rakel Dögg Bragadóttir, ein reyndasta handknattleikskona landsins, mun ekki leika meira með Stjörnunni í vetur en hún gengur með sitt annað barn. Rakel var í ótímabundinni pásu eftir höfuðhögg sem hún hlaut fyrr í vetur, en nú er ljóst að pásan verður að minnsta kosti fram á næsta haust.

Rakel var atvinnumaður í Noregi og Danmörku og lengi vel fyrirliði íslenska landsliðsins. Hún var burðarás í liðinu sem keppti á EM í Danmörku árið 2010, fyrsta stórmóti sem íslenska kvennalandsliðið keppti á. Hún segir það ekki víst að hún muni taka skóna fram aftur á næsta tímabili.

„Núna ætla ég að einbeita mér að þessu verkefni sem bíður mín. Ef að allt gengur vel og eftir óskum þá ætla ég að taka stöðuna í haust. Það er allavega ekki stórt markmið hjá mér að spila aftur næsta vetur,“ sagði Rakel í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Rakel lagði skóna á hilluna fyrir fjórum árum vegna höfuðmeiðsla en kom þó aftur til baka á völlinn. Þrátt fyrir að vera óviss með það hvort hún ætli að koma aftur sem leikmaður, segist hún þó líklegast aldrei skilja alveg við handboltann.

„Ég hef mikinn áhuga á þjálfun. Ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að snúa alveg baki við handboltanum,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.