Körfubolti

Stólarnir mæta sjóðheitum Haukum í Höllinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Haukar og Tindastóll mætast í seinni undanúrslitaviðureign Malt bikars karla í körfubolta í kvöld.

Liðin eru bæði í toppbaráttunni í Domino's deildinni og má búast við hörkuleik í Laugardalshöll í kvöld. Haukar fara inn í leikinn með átta sigurleiki í röð á bakinu og fullir sjálfstraust.

„Við erum bara að spila vel eins og staðan er í dag, en það getur allt svosem gerst. Við verðum bara að mæta í leiki á fullu, annars tapast þeir,“ sagði Emil Barja, leikmaður Hauka, í viðtali við Arnar Björnsson fyrir leikinn.

„Þetta eru svipuð lið, með breiða hópa og mikið byggt á uppöldum leikmönnum. Við erum kannski aðeins stærri í flestum stöðum og vonandi mun það skila sigri.“

Emil var ekki í vafa um það að hann myndi lyfta bikarnum á loft á laugardaginn. Mótherji hans hjá Tindastól, Sigtryggur Arnar Björnsson, var hins vegar viss um að það væru Stólarnir sem tækju gripinn.

„Við ætlum að vinna þennan bikar, það er markmiðið,“ sagði Sigtryggur Arnar.

„Það er kominn tími á að þeir tapi, við ætlum að gefa þeim fyrsta tapleikinn.“

Tindastóll hefur leikið frekar sveiflukennt í Domino's deildinni til þessa, voru lélegir á móti ÍR á fimmtudaginn en völtuðu síðan yfir Valsara um helgina. Sigtryggur sagði það vera dagsformið sem stjórnaði því.

„Við verðum bara að koma sterkari í leikina. Við verðum að spila góða vörn, með góðri vörn kemur sókn. Númer 1, 2 og 3 er vörnin,“ sagði Sigtryggurb Arnar.

Leikur Hauka og Tindastóls hefst klukkan 20:00 í Laugardalshöll í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×