Lífið samstarf

Sigraðu sjálfan þig

Forlagið kynnir
Ingvar Jónsson en hann er stjórnunar- og markaðsfræðingur ásamt því að vera ICF markþjálfi.
Ingvar Jónsson en hann er stjórnunar- og markaðsfræðingur ásamt því að vera ICF markþjálfi. MYND/STEFÁN
KYNNING Forlagið hefur sent frá sér bókina Sigraðu sjálfan þig eftir Ingvar Jónsson en hann er stjórnunar- og markaðsfræðingur ásamt því að vera ICF markþjálfi. Bókin er þriggja vikna áskorun fyrir venjulegt fólk sem vill ná meiri árangri í lífinu. 

Ingvar segir að bókin sé byggð á hugmyndafræði markþjálfunar. Sjálfur hefur hann starfað sem markþjálfi undanfarin sex ár og aðstoðað fjölmarga við að ná markmiðum sínum. „Þetta er bók sem hjálpar lesandanum að finna lausnir sem henta honum best. Hún aðstoðar lesendur við leitina að svörum sem þeir hafa ekki fundið hingað til því allir eru sérfræðingur í sjálfum sér. Lesandinn byrjar á því að fara í gegnum gríðarlega víðtækt sjálfsmat,“ útskýrir Ingvar. „Það eru 110 staðhæfingar í bókinni sem lesandinn þarf að leggja mat á og taka afstöðu til,“ bætir hann við.

Ingvar segir bókina ekki fjalla um rústabjörgun heldur væntingar, að ná meiri árangri í lífinu og að nýta betur eigin færni. „Hugsunin er: „Ég veit að ég á talsvert inni“. Maður þarf að greina heilsu, orkustjórnun, samskipti, tengsl við fjölskyldu og vini, áhugamál, fjármál, persónulegan þroska og vinnu. Síðan velur lesandinn það sem hann langar að vinna áfram með. Bókin hjálpar fólki að komast upp úr djúpum hjólförum vanans,“ segir Ingvar en hann hefur fengið mjög góð viðbrögð frá lesendum.

„Bókin kom út eftir áramótin en hún er þriggja vikna ferðalag. Lesandinn fer í gegnum einn dag í einu, les og fræðist, vinnur verkefni og svarar spurningum sem opna augu hans fyrir hvernig vanahegðun getur haldið aftur af honum í starfi og lífinu almennt. Ég hef heyrt frá fólki sem hefur deilt með mér sigrum sínum eftir að hafa fylgt bókinni. Reynsla mín á undanförnum árum sem markþjálfi hefur kennt mér að sumir hlutir virka vel en aðrir ekki. Í bókinni nota ég það sem hefur virkað best. Ég hef til dæmis kennt stjórnendum fyrirtækja að nýta hæfnisþætti markþjálfunar til að aðlaga eigin stjórnunarstíl betur að sínu starfsfólki. Til að vera góður stjórnandi þarf maður að skilja sjálfan sig betur,“ útskýrir Ingvar. „Fyrst þarf að setja súrefnisgrímuna á sjálfan sig áður en maður aðstoðar aðra“.

Bókin er byggð upp á sama hátt og markþjálfasamtal. „Ég tala við lesandann í gegnum alla bókina. Við byrjum á því að horfast í augu við staðreyndir, förum svo saman í ákveðna rannsóknarvinnu þar sem við skoðum viðkomandi innan frá. Bókinni er ætlað að hræra upp í lesandanum og vekja hann til vitundar um hvar hann stendur og hvert hann vill stefna. Hún byggir upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Bókin endar síðan á því að lesandinn setur sér raunhæf markmið sem hann brennur fyrir að ná,“ útskýrir Ingvar en bókin er fáanleg í bókaverslunum.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×