Hazard með tvö er Chelsea komst aftur á sigurbraut

Dagur Lárusson skrifar
Eden Hazard var á skotskónum.
Eden Hazard var á skotskónum. Vísir/Getty
Eden Hazard skoraði tvö mörk í 4-0 sigri Chelsea á Brighton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en með sigrinum komst Chelsea upp í 3.sæti deildarinnar með 50 stig.

Chelsea byrjaði heldur betur með miklum krafti og skoraði tvö mörk á fyrstu sex mínútum leiksins. Það fyrra kom á 3.mínútu en þá barst boltinn til Eden Hazard í teig Brighton og hann skoraði örugglega framhjá Mat Ryan í markinu.

Þremur mínútum seinna skoraði Chelsea óaðfinnanlegt mark en þá spiluðu þeir Hazard, Batshuayi og Willian glæsilega á milli sín og endaði það samspil með þrumuskoti frá Willian sem endaði í markinu og var staðan 0-2 í hálfleik.

Brighton áttu sín færi í leiknum og varði Caballero nokkrum sinnum glæsilega til þess að koma í veg fyrir mark. Brighton sótti mikið undir lok leiksins sem opnaði fyrir skyndisóknir hjá Chelsea. Chelsea nýtti sér eina slíka á 77. mínútu en þá var það Hazard aftur á ferðinni sem skoraði.

Það var síðan Victor Moses sem skoraði síðasta mark Chelsea undir blálokin.

Lokatölur leiksins voru 0-4 og er Chelsea því komið aftur upp í 3.sæti deildarinnar og er með 50 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira