Erlent

Réðust til atlögu gegn al-Qaeda í Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Markmið árásarinnar, var samkvæmt hernaðaryfirvöldum í Bandaríkjunum að safna upplýsingum um aðgerðir og uppbyggingu hryðjuverkasamtakanna.
Markmið árásarinnar, var samkvæmt hernaðaryfirvöldum í Bandaríkjunum að safna upplýsingum um aðgerðir og uppbyggingu hryðjuverkasamtakanna. Vísir/AFP
Bandarískir hermenn réðust til atlögu gegn útstöð al-Qaeda í Jemen í morgun. Markmið árásarinnar, var samkvæmt hernaðaryfirvöldum í Bandaríkjunum að safna upplýsingum um aðgerðir og uppbyggingu hryðjuverkasamtakanna. Hermennirnir eru sagðir hafa fellt sjö vígamenn í árásinni.

Í tilkynningu hersins segir ekkert um hvort að bandarískir hermenn haf særst eða látið lífið, en aðgerðin var studd af stjórnarher Jemen.

Al-Qaeda hefur lengi verið með viðveru í Jemen en hafa vaxið ásmegin á undanförnum árum.

Undanfarin tvö ár hafa uppreisnarmenn Húta háð stríð gegn stjórnvöldum Jemen og hefur al-Qaeda notað óöldina til að styrkja stöðu sína í landinu verulega. Hluti hryðjuverkasamtakanna í Jemen hefur lengi verið kallaður AQAP, eða al-Qaeda in the Arabian Peninsula og er talinn vera skæðasti hluti samtakanna.

Meðal árása sem AQAP hefur lýst yfir ábyrgð á er árásin á skrifstofu Charlie Hebdo árið 2015. Ríkisstjórn Barack Obama hafði lengi notast við drónaárásir til að berjast gegn samtökunum og hafa með þeim hætti fellt fjölda leiðtoga AQAP. Þær hafa þó ekki komið í veg fyrir vöxt samtakanna í Jemen.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.