Körfubolti

Hildur Björg og Martin eru körfuknattleiksfólk ársins 2017

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir og Martin Hermannsson.
Hildur Björg Kjartansdóttir og Martin Hermannsson. Mynd/KKÍ

Hildur Björg Kjartansdóttir og Martin Hermannsson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2017 af Körfuknattleikssambandi Íslands. Þetta er í 21. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða frá árinu 1998.

Martin er að hljóta þessa viðurkennningu annað árið í röð en þetta er í fyrsta sinn sem Hildur Björg er valin körfuknattleikskona ársins.

Thelma Dís Ágústsdóttir varð í 2. sæti í kjörinu hjá konunum en þriðja varð síðan Helena Sverrisdóttir. Aðrar sem fengu atkvæði koma hér í stafrófsröð: Berglind Gunnarsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Sara Rún Hinriksdóttir.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn, starfsmönnum og afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum allra landsliða KKÍ í verkefnum á árinu 2017.

Tryggvi Snær Hlinason varð í 2. sæti í kjörinu hjá körlunum en þriðji varð síðan Haukur Helgi Pálsson. Aðrir sem fengu atkvæði í stafrófsröð: Hlynur Bæringsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Jón Arnór Stefánsson, Jón Axel Guðmundsson og Kári Jónsson.


Hér fyrir neðan má sjá yfirlit KKÍ yfir árið hjá besta körfuboltafólki ársins 2017.


Körfuknattleikskona ársins 2017
1. Hildur Björg Kjartansdóttir
2. Thelma Dís Ágústsdóttir
3. Helena Sverrisdóttir

Hildur Björg Kjartansdóttir · Leganés (Spánn)
Hildur Björg er að hljóta nafnbótina „Körfuknattleikskona ársins” í fyrsta sinn. Hildur Björg lauk háskólaferli sínum með UTPA háskólanum í Texas í vor þar sem hún stóð sig vel og bætti sinn leik og stefndi á tímabil hér heima í kjölfarið í vetur. Áður en tímabilið hófst samdi Hildur Björg áður við Legonés á Spáni sem leikur í næst efstu deild þar í landi. Hildur Björg hefur farið vel af stað með liði sínu á Spáni og liðinu gengið vel og er í öðru sæti í sinni deild. Með landsliðinu lék Hildur Björg á Smáþjóðaleikunum í San Marinó í byrjun sumars, þar sem íslenska liðið hafnaði í öðru sæti, og í undankeppni EM núna í nóvember  þar sem hún var með 16 stig að meðaltali á um 34 mínútum að meðaltali. Með landsliðinu er Hildur Björg orðin ein af lykilleikmönnum liðsins og hefur sýnt í þeim leikjum sem búnir hvers hún er megnug og mun án efa bæta sig meira sem atvinnumaður í körfuknattleik á næstu árum.

Thelma Dís Ágústsdóttir · Keflavík
Thelma Dís hefur á skömmum tíma bætt sinn leik mikið og farið frá því að vera ein efnilegasti leikmaður landsins í að vera einn sá besti í íslensku deildinni. Thelma Dís átti frábært tímabil í fyrra með Keflavík, sem vann tvöfalt, bæði íslands- og bikarmeistaratitla í lok tímabilsins. Þá var hún kosin besti leikmaður Domino’s deildarinnar á lokahófi KKÍ eftir tímabilið. Í ár hefur Thelma Dís leikið mjög vel með félagsliði sínu Keflavík í Domino’s deildinni og Maltbikarnum, og er á öllum topplistum yfir helstu tölfræðiþætti deildarinnar, í stigum skoruðum, fráköstum, stoðsendingum og framlagi í leik. Með landsliðinu er Thelma Dís einn af lykileikmönnum liðsins og framtíðarleikmaður næstu ára.

Helena Sverrisdóttir · Haukar
Helena Sverrisdóttir hefur verið valin „Körfuknattleikskona árins“ 11 sinnum á síðustu 13 árum og hefur fyrir löngu sannað sig sem ein besta körfuknattleikskona sem landið hefur alið. Helena kom til baka í lok síðasta tímabils eftir að hafa verið í barnseignarfríi og hefur síðan á núverandi tímabili verið lykilleikmaður með félagsliði sínu í Domino’s deildinni sem og með landsliðinu í undankeppni EM. Hún leiðir íslenska liðið í stigum skoruðum (20), fráköstum (8.5) og stoðsendingum (7.5) að meðaltali í leik. Í deildinni hér heima er Helena efst í öllum helstu tölfræðiflokkum íslenskra leikmanna og ofarlega að auki á öllum listum ef allir erlendir leikmenn eru einnig taldir með.


Körfuknattleikskarl ársins 2017
1. Martin Hermannsson
2. Tryggvi Snær Hlinason
3. Haukur Helgi Pálsson

Martin Hermannsson · Champagne Châlons-Reims Basket (Frakkland)
Martin er orðin einn af betri leikmönnum íslenska landsliðsins á sínu 23. aldursári og einn af framtíðarburðarásum landsliðsins. Martin lék á síðsta tímabili  með Étoile de Charleville-Mézéres í næstefstu deild í Frakklandi, þar sem hann hlaut viðurkenningar fyrir sína frammstöðu í lok tímabilsins, og var í úrvalsliði deildarinnar. Í kjölfarið samdi hann við Châlons-Reims sem leikur í efstu deild og hefur staðið sig frábærlega það sem af er tímabilinu. Í sumar lék Martin alla leiki íslenska landsliðsins í undirbúningi sumarsins og svo í kjölfarið á sínu öðru Evrópumóti, EuroBasket 2017, sem fram fór í Finnlandi. Þar var Martin var einn af betri leikmönnum íslenska liðsins. Á lokamótinu leiddi Martin íslenska liðið í þrem af helstu fjórum tölfræðiþáttunum. Hann var með flest stig (12.6), flestar stoðsendingar (3.6) og hæsta framlagið (12.6) að meðaltali í leik, auk þess að vera í öðru sæti yfir flest fráköst (4.0).

Tryggvi Snær Hlinason · Valencia (Spánn)
Bárðdælingurinn hávaxni hefur sýnt það og sannað hversu miklum framförum hann hefur tekið á skömmum tíma, í ljósi þess að hann byrjaði að æfa körfubolta árið 2014. Tryggvi Snær er orðinn eitt mesta efni íslenska landsliðsins og framtíðar leikmaður af ungu kynslóðinni en Tryggvi er fæddur 1997. Tryggvi var í U20 ára liði Íslands sem náði 2. sætinu í B-deild Evrópumótsins sumarið 2016 og lék með U20 ára liðinu í fyrsta sinn í sögu KKÍ í A-deild síðastliðið sumar, þar sem liðið hafnaði í 8. sæti af 16 liðum. Tryggvi stóð sig gríðarlega vel og var valinn í fimm manna úrvalsliðið í mótslok, fyrstur íslendinga í sögunni. Hann leiddi mótið í framlagi bæði eftir riðlakeppnia og í mótslok eftir úrslitakeppnina með 25.6 framlagstigum að meðaltali og flest varin skot í leik (3.1). Þá var hann þriðji frákastahæsti maður mótsins með 11.6 í leik að meðaltali. Tryggvi Snær samdi við Valencia á Spáni fyrir sumarið til þriggja ára þar sem hann æfir og keppir með Spánarmeisturunum í bestu deild Evrópu og leikur með þeim einnig í EuroLeague, meistadeild körfunnar og hefur verið að fá stærra og stærra hlutverk að undanförnu.

Haukur Helgi Pálsson · Cholet Basket (Frakkland)
Haukur Helgi lék í næst efstu deild í fyrra í Frakklandi og átti gott tímabil með Rouen. Hann fékk í kjölfarið samning við lið í efstu deild í Frakklandi, sem er ein besta deild Evrópu, með liði Cholet Basket. Þar leikur hann mikilvægt hlutverk í sínu liði og hefur leikið vel það sem af er timabili. Með landsliðinu átti Haukur Helgi flott Evrópumót í Finnlandi, þar sem hann var næst hæstur í framlagi og stigum skoruðum fyrir Ísland. Haukur Helgi er einn af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins á næstu árum.

Körfuboltafólk ársins frá árinu 1998:
1998: Helgi Jónas Guðfinnsson og Anna María Sveinsdóttir
1999: Herbert Arnarson og Guðbjörg Norðfjörð
2000: Ólafur Jón Ormsson og Erla Þorsteinsdóttir
2001: Logi Gunnarsson og Kristín Björk Jónsdóttir
2002: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2003: Jón Arnór Stefánsson og Signý Hermannsdóttir
2004: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2005: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2006: Brenton Birmingham og Helena Sverrisdóttir
2007: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2008: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2009: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2010: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2011: Jakob Örn Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir
2012: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2013: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2014: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2015: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2016: Martin Hermannsson og Gunnhildur Gunnarsdóttir
2017: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
 
Oftast valin Körfuboltamaður ársins:*
12 Jón Arnór Stefánsson (2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010, 2012, 2013, 2014, 2015)
11 Helena Sverrisdóttir (2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015)
4 Jón Kr. Gíslason (1987, 1989, 1992, 1993)
3 Kristinn Jörundsson (1973, 1975, 1977)
2 Martin Hermannsson (2016, 2017)
2 Jón Sigurðsson (1976, 1978)
2 Valur Ingimundarson (1984, 1988)
2 Guðmundur Bragason (1991, 1996)
2 Anna María Sveinsdóttir (1994, 1998)
2 Birna Valgarðsdóttir (2002, 2004)
 
*Valið hefur verið tvískipt síðan 1998 en frá 1973 til og með 1997 var aðeins valin einn aðili, karl eða kona, en síðan þá hafa verið valin Körfuknattleiksmaður og Körfuknattleikskona ársins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.