Innlent

Íslenska á tækniöld: Sjöföldu framlagi í fjárlagafrumvarpi fagnað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fastlega er reiknað með því að innan tíðar muni vera hægt að eiga í samskiptum við öll helstu tæki heimilisins
Fastlega er reiknað með því að innan tíðar muni vera hægt að eiga í samskiptum við öll helstu tæki heimilisins Vísir/Getty

Gert er ráð fyrir að 450 milljónir verði settar í að byggja upp innviði í íslenskri máltækni samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Um er að ræða sjöfalt hærri upphæð en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar. Fagnaðarefni segir prófessor í íslensku við Háskóla Íslands.

Í fjárlagafrumvarpinu segir að fjárhæðin verði notuð í að „[b]yggja upp innviði íslenskrar máltækni í opnum aðgangi þannig að íslenska verði fullgild í stafrænum heimi í samræmi við stjórnarsáttmála.“ Verður það gert á grundvelli nýrrar aðgerðaráætlunar sem kynnt var í sumar. Skýrslan var afrakstur starfshóps sem skilaði inn metnaðarfullum tillögum sem miða að því að gera íslenskuna fullgilda í stafrænum heimi. Eins og Vísir hefur fjallað um þarf töluvert að gerast til þess að slíkt verði að veruleika.

Alls er gert ráð fyrir því að 2,3 milljarða þurfi á næstu fimm árum vegna verkáætlunnar og fagnar Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og einn helsti talsmaður þess að lagt verði áhersla á þróun máltækni, því að stjórnvöld stígi stórt skref í því að láta framkvæma verkáætlunina.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.

„[H]efur nokkrum sinnum fagnað því að stjórnvöld virtust vera að taka við sér með stuðning við íslenska máltækni - en jafnoft þurft að éta fögnuðinn ofan í sig vegna þess að ekkert hefur orðið úr framkvæmdum. En nú vonast ég til að þetta sé komið, fyrst fé sem munar um er komið inn í fjárlagafrumvarpið. Áherslur nýrrar ríkisstjórnar í mennta- og menningarmálum eru sannarlega fagnaðarefni,“ skrifar Eiríkur á Facebook, en hann gagnrýndi mjög stuðning fyrri ríkisstjórnar við verkáætlunina.

Vísir hefur á undanförnum árum fjallað ítarlega um þróun í íslenskri máltækni og þá hættu sem ýmsir telja að steðji að íslensku eftir því sem talandi tæki, á borð við snjallsíma, verða fyrirferðarmeiri í lífi okkar. Í rannsókn á vegum sextíu rannsóknarsetra í 34 löndum kom til að mynda fram að flest Evrópumál eigi á hættu „stafrænan dauða,“ þ.e. að lifa ekki áfram á netinu eða í snjalltækjum þannig að notkunarsvið þeirra yrði þrengt verulega. Íslenska var talin í næstmestri hættu.
Verkáætlunin miðar að því að að koma á fót hagnýtum verkefnum í máltækni, á borð við þannig að fjótlega verði til talgervill, talgreinir, sjálfvirk þýðingarvél og leiðréttingarforrit fyrir íslensku svo dæmi séu tekin.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.