Innlent

Segir ríkisstjórnina skammta sér tuttugu milljónir í áróðursmál

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir/Hanna
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir ríkisstjórnina skammta sér tuttugu milljónir í áróðursmál í nýju fjárlagfrumvarpi. Hann segir það með ólíkindum að til standi að auka framlög til forsætisráðuneytisins um fimmtíu prósent milli ára.

„Það er meiri aukning en ég hef nokkurn tímann séð í nokkurt ráðuneyti og miklum mun meira en til stóð í september,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við fréttastofu.

„Aukningin liggur ekki hvað síst í 105 milljóna króna framlagi sem á að nýta til eftirlits með vinnu ráðherra ríkisstjórnarinnar og tryggja að þeir fylgi stefnu ríkisstjórnarinnar, það er Vinstri grænna. Í opanálag skammtar ríkisstjórnin sér tuttugu milljónir í áróðursmál.“

Hvergi ráðist í úrbætur

Hann segir það valda sér áhyggjum að ríkisstjórnin virðist alls staðar vera að setja pening í að viðhalda gölluðum kerfum. Hvergi sé ráðist í nauðsynlegar úrbætur.

„Útgjaldaaukning frumvarpsins er náttúrulega gífurleg en það er eins og við var að búast hjá flokkum sem voru ekki sammála um neitt nema að skipta á milli sín stólum og útdeila peningunum sem urðu til á síðustu árum,“ segir Sigmundur.

„Ekki veitir af fjármagni til dæmis í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almannatryggingar. En ef mikið fjármagn er sett í þessa málaflokka án þess að endurskoða um leið hvernig fjármagnið nýtist þýðir það einfaldlega að það verður enn erfiðara og enn dýrara að laga kerfið þegar loks verður ráðist í það.“

Í fjárlagafrumvarpinu segir að auka eigi útgjöld til heilbrigðismála upp á 21 milljarð og munu þau dreifast á heilsugæsluna, sjúkrastofnanir á landsbyggðina og Landspítalann. Þá hækka framlög til framhaldsskóla um 400 milljónir og háskóla um einn milljarð króna en heildarframlög til menntamála aukast um 5,5 milljarða.

„Menn geta rétt ínyndað sér hver viðbrögð VG hefðu verið ef nýr forsætisráðherra Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks hefði tekið upp á því að auka framlög til eigin ráðuneytis, ekki hvað síst til að auka eigið vald,“ segir Sigmundur.


Tengdar fréttir

Útgjöld ríkissjóðs aukast um 66 milljarða á næsta ári

Útgjöld ríkissjóðs á næsta ári hækka um 66 milljarða króna miðað við fjárlög ársins í ár samkvæmt fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem lagt verður fram á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×