Viðskipti innlent

Fyrsta fiskiskip landsins sem knúið er af rafmótor sigldi til Reykjavíkur

Atli Ísleifsson skrifar
Stormur er 45 metra langur, um þúsund brúttólestir og tekur allt að 400 tonn af frystri afurð í lest.
Stormur er 45 metra langur, um þúsund brúttólestir og tekur allt að 400 tonn af frystri afurð í lest. Aton
Fyrsta fiskiskipið sem knúið er af rafmótor sigldi til Reykjavíkurhafnar í gær. Skipið, Stormur HF 294, er nýtt línu- og netaskip útgerðarinnar Stormur Seafood, en það er fyrsta fiskiskipið á Íslandi sem drifið er af rafmótor og fyrsta nýsmíði í línuskipaflota landsmanna í sextán ár.

Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá Aton. Komi skipið frá pólsku borginni Gdansk en smíði skipsins tók um tvö ár.

Steindór  Sigurgeirsson, aðaleigandi Storms Seafood, segir í samtali við Vísi að skipið sé „dísil-rafknúið“ (e. diesel-electric) þar sem skrúfubúnaðurinn sé knúinn af rafmótor. „En til að drífa rafmótorinn þurfum við orku og hana fáum við með dísil. Á móti kemur það að við getum haft vélauppsetninga öðruvísi sem sparar umtalsvert af orku. Við teljum að við séum með helmingi minni orkunotkun en sambærilegur bátur,“ segir Steindór. 

Hann segir að mikilvægt sé að fleiri aðilar í sjávarútveginum líti til kaupa á skipum líkt og þessu sem sé afar umhverfisvænn kostur. Segir hann að sjávarútvegurinn þurfi í heild að huga betur að loftslagsmálum.

„Stormur er 45 metra langur, um þúsund brúttólestir og tekur allt að 400 tonn af frystri afurð í lest,“ segir í tilkynningunni.

Texta og fyrirsögn hefur verið breytt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×