Menning

Konum ekki trúað og blásið á það sem þær segja

Magnús Guðmundsson skrifar
Eyja Margrét segir að það felist flóknar spurningar í viðhorfi okkar til listamanna sem hafa breytt rangt.
Eyja Margrét segir að það felist flóknar spurningar í viðhorfi okkar til listamanna sem hafa breytt rangt. Visir/Auðunn

Kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi er hvort tveggja eitthvað sem á sér stað í sömu menningu. Þetta snýst um að karlar eru að undirstrika vald sitt yfir konum, þó svo að vissulega sé ofbeldið alvarlegri birtingarmynd en áreitnin,“ segir Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur aðspurð hvort flot sé á merkingu hugtaka í umfjöllun um byltingu kvenna gegn kynferðislegu valdi og ógnunum karla. Eyja Margrét bendir á að karlmaður sem stundar kynferðislega áreitni gagnvart konum sé auðvitað að sýna konum mikla lítilsvirðingu.

„Slíkur maður er ekki líklegur til þess að líta svo á að konur verðskuldi jafna meðferð í samfélaginu, eins og t.d. sömu laun, þannig að þetta er viðhorf sem felur í sér að líta ekki á konur sem fullgildar manneskjur, þó svo að launamunur sé auðvitað ekki það sama og áreitni eða hvað þá ofbeldi. Ofbeldið er alltaf alvarlegasta birtingarmyndin. Varðandi áreitnina þá held ég að hreinlega allar konur hafi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni við alls konar aðstæður. Það þarf ekki endilega að hafa verið í vinnunni en alveg örugglega úti á djamminu eða eitthvað slíkt. En sem betur fer hafa ekki allar konur orðið fyrir kynferðisofbeldi þó að þær hafi verið ansi margar.“

Loksins er hlustað
Eitt af því sem hefur vakið eftirtekt varðandi byltingu kvenna í þessum efnum er hversu leiðandi heimur lista og menningar virðist hafa verið í umræðunni en síðan hafi stjórnmálin og jafnvel fleiri geirar fylgt á eftir. Eyja Margrét segir að á því kunni að vera einfaldar skýringar. „Ef við horfum á t.d. „höfum hátt“ byltinguna hér heima þá held ég að það hafi ráðist af tilviljun að Bergur Þór varð að andliti andstöðuhópsins vegna þess að það var brotið gegn dóttur hans. Það var fjölmennur hópur sem stóð þarna að baki en Bergur Þór kannski tók á sig að vera í forgrunni vegna þess að hann er leikari og því vanur að koma fram, kemur vel fyrir sig orði og ræður vel við að vera í fjölmiðlum. Þá er ég alls ekki að gera lítið úr frammistöðu Bergs Þórs í þessu máli þar sem hann stóð sig mjög vel.

En þegar horft er til Weinsteins og Hollywood og síðan sænsku leikkvennanna þá verðum við að hafa í huga að þetta er heimur sem við erum vön að taka mikið eftir. Heimur sem á greiðan aðgang að fjölmiðlum og þar með okkur almenningi sem er alltaf að fylgjast með þessu fólki. Hins vegar hefur t.d. verið talsverð umræða sem ég hef verið að fylgjast með í sambandi við kynferðislega áreitni í akademíu og í hinum enskumælandi heimspekiheimi. Þar hafa verið að koma upp mál á síðustu árum þar sem þekktir málsmetandi heimspekingar hafa orðið uppvísir að kynferðislegri áreitni og konur hafa einmitt mikið verið að deila reynslusögum af áreitni, bæði gömlum og nýjum. Sem dæmi um þessa umræðu í akademíunni má nefna mál sem hefur verið í brennidepli síðan í september þegar mótmæli hófust við háskólann í Rochester í New York-ríki í tilefni af því að háskólinn vildi ekkert beita sér gegn málvísindamanninum Florian Jaeger sem starfar þar við hugfræðideildina en margir nemendur og samstarfskonur frá ýmsum tímum hafa kvartað undan áreitni hans. Núna í vikunni skrifuðu svo hundruð prófessora í Bandaríkjunum undir áskorun um að sniðganga skólann í því skyni að þrýsta á aðgerðir í málinu. Þannig að þessi umræða hefur vissulega verið stígandi víða á síðustu árum.

Þetta sprettur úr jarðvegi sem hefur verið að myndast á síðustu árum og þetta er umræða sem hefði aldrei getað átt sér stað fyrir tíu árum. Auðvitað hefur verið hvíslað bak við tjöldin en það hefur verið sussað á það og ekki tekið mark á því. En einhvern veginn hefur verið að byggjast upp þannig andrúmsloft að núna er farið að hlusta og taka mark á umræðunni. Þetta er stóra breytingin og hún er vonandi að skila árangri.“

Stórar spurningar
Eitt af því sem hefur komið upp í umræðunni í menningarlegu tilliti er hvaða áhrif þetta hefur á okkur öll sem viðtakendur listar. Verður þetta til þess að við endurmetum verk ákveðinna listamanna sem hafa orðið uppvísir að kynferðislegri áreitni eða jafnvel ofbeldi? „Jú, eflaust hefur þetta áhrif á okkur öll sem viðtakendur en þetta eru flóknar spurningar. Er t.d. siðferðislega rétt að njóta listar frá þeim sem hafa gert eitthvað af sér og þá er ekki endilega lykilatriði hvort það er kynferðisbrot eða eitthvað annað? Er viðkomandi kannski morðingi eða þjófur? Eigum við að gera þá kröfu að allir listamenn séu siðferðislega hreinir?

Það er margt sem spilar þarna inn í og eitt er hvort það hafi áhrif á þeirra listsköpun og hvort verkið verði verra fyrir vikið. Er listaverkið mengað ef viðkomandi listamaður er barnaperri? Er þá eitthvað slíkt í listaverkinu og ég að menga mig með því að skoða verkið? Hefur hann brenglaðar hugmyndir sem gera listaverkið verra? Er það mitt áhyggjuefni?

En svo getum við líka tekið ákveðna afstöðu sem neytendur og ákveðið hvort við viljum styrkja viðkomandi með því að kaupa hans list. Sem neytendur erum við alltaf að velja og hafna. Það er svona praktísk leið að því að taka afstöðu. Málið er að ef við höldum áfram að fara á allar Woody Allen-myndir og Polanski-myndir o.s.frv. þá erum við að hjálpa þessum körlum að halda völdum. Þeir geta þá haldið áfram sinni hegðun eins og ekkert sé, sem verður til þess að konum er áfram haldið niðri. Fyrir vikið er fullt af frábærum konum sem komast ekki áfram.“

Klassískt vandamál
Aðspurð hvort vandlæting í samfélaginu sé orðin of mikil þá segir Eyja Margrét erfitt að segja til um slíkt. „Vandlæting er afar vandmeðfarin. Maður þarf líka að hafa í huga hvort maður er að taka ákvörðun fyrir sig sjálfan eða að dæma aðra eftir því hvaða ákvörðun þau taka. Ætla ég að fordæma alla þá sem horfa á Woody Allen-myndir? Segja viðkomandi vera vonda manneskju vegna þess að það er eitthvað sem hún velur að gera. Þá er ég farin að ganga ansi langt í vandlætingunni. Kannski er einfaldlega nóg að maður ákveði bara fyrir sjálfan sig að sleppa því.“

Eyja Margrét segist vona að umrædd bylting sé rétt að byrja. „Það sem maður hræðist er að það komi í þetta eitthvert bakslag. Það þarf svo lítið til. En mér sýnist þetta nú vera að þokast í rétt átt en auðvitað verður ekki alltaf sami kraftur í þessu á hverjum degi. Það kemur eitthvað upp og allir eru voða uppteknir af því og svo kemur eitthvað annað. Það er alveg eðlilegt en ég vona að þetta opni augu fólks fyrir því því hvað sé viðunandi hegðun og hvað ekki. Við stöndum alltaf frammi fyrir þessu klassíska vandamáli að konum er ekki trúað og bara blásið á það sem þær eru segja með „æ, svona vertu ekki að þessu“ afgreiðslu. Þetta er í raun rót vandans og ef okkur tekst að breyta þessu þá ávinnst mikið.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. nóvember.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.