Innlent

Hringvegurinn gæti styst um fjörutíu kílómetra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hér má sjá vegarkaflana sjö þar sem hægt er að ná samtals fjörutíu kílómetra styttingu hringvegarins.
Hér má sjá vegarkaflana sjö þar sem hægt er að ná samtals fjörutíu kílómetra styttingu hringvegarins. Grafík/Guðmundur Björnsson, Stöð 2.

Hringvegurinn um Suðausturland, frá Öræfum til Berufjarðar, gæti styst um nærri fjörutíu kílómetra, miðað við framkvæmdir sem ýmist eru hafnar eða á teikniborðinu hjá Vegagerðinni. Einn anginn eru göng undir Lónsheiði. Um þetta var fjallað í fréttum Stöðvar 2. 

Brúin yfir Jökulsá í Lóni er ein af mörgum einbreiðum brúm á hringveginum. Það er hins vegar ekki ætlunin að byggja nýja brú á sama stað heldur hyggst Vegagerðin byggja hana neðar í Lóni og ná um leið fram umtalsverðri styttingu, upp á fimm til fimm og hálfan kílómetra, að sögn Reynis Gunnarssonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Hornafirði.

Úr Lónssveit. Fyrirhugað er að færa þjóðveginn nær ströndinni með nýrri brú yfir Jökulsá í Lóni. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Í Lóni er önnur stærri breyting til skoðunar; jarðgöng undir Lónsheiði til að losna við kaflana um Hvalsnes- og Þvottárskriður, sem lokast oft vegna snjóflóða og skriðufalla. Reynir segir að verið sé að tala um þriggja kílómetra göng sem myndu stytta leiðina um tólf kílómetra. 

Leiðin um Hvalsnes- og Þvottárskriður var opnuð fyrir um fjörutíu árum en áður lá þjóðvegurinn um Lónsheiði. Það gæti því farið svo að þar yrði framtíðarleiðin á ný en Reynir segir enga spurningu að göng yrðu til mikilla bóta. 

„Það er stórhættulegur vegur um skriðurnar og veðravíti þar, - sem verður svo sem aldrei hægt að laga. Þetta verður aldrei örugg leið út af grjóthruni,“ segir Reynir.

Í Hvalsnes- og Þvottárskriðum ógna grjóthrun, snjóflóð og skriðuföll vegfarendum. Mynd/Stöð 2.

Vegagerðin er þegar búin að bjóða út fyrsta áfanga nýrrar brúar yfir Hornafjörð, framkvæmdir eru hafnar í Berufjarðarbotni og við höfum einnig greint frá áformum um styttingu hringvegarins í Öræfum.

Og fleiri styttingar eru til skoðunar á Suðausturlandi, um Hofsá í Álftafirði og Hamarsá, sem gæti þýtt um eins kílómetra styttingu á hvorum stað. 

Alls gætu þannig sjö kaflar styst frá Öræfum í vestri til Berufjarðar í austri, en mestar styttingar fengjust í Hornafirði og á Lónsheiði. Samtals gæti hringvegurinn á Suðausturlandi styst um nærri fjörutíu kílómetra, en til samanburðar má geta þess að hann styttist um 42 kílómetra með Hvalfjarðargöngum. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.