Körfubolti

Langömmubarn fyrstu forsetafrúar Íslands endurskrifaði íslenska körfuboltasögu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Langömmubarn eiginkonu fyrsta forseta Íslands endurskrifaði íslenska körfuboltasögu í gær.

Mikil tímamót urðu í íslenskum körfubolta í gær þegar Georgía Olga Kristiansen varð fyrsta konan til að dæma leik í efstu deild í íslenskum körfubolta.

Georgía, sem heitir í höfuð langömmu sinnar, Georgíu Björnsson, konu Sveins Björnssonar fyrsta forseta íslenska lýðveldisins, dæmdi í gærkvöldi leik Vals og Tindastóls.  Enn eitt karlavígið er þar með fallið en Arnar Björnsson talaði við Georgíu í gær.

„Tilfinningin er mjög góð og að sjálfsögðu er ég mjög spennt,“ sagði Georgía Olga Kristiansen við Arnar fyrir leikinn. Af hverju er hún ekki búin að fá tækifærið fyrr?

„Það er góð spurning. Það skiptir svo sem ekki máli því ég er að fara að dæma þennan leik í kvöld. Ég er búin að ná því markmiðinu mínu núna,“ sagði Georgía. Hefur hún einhvern tímann hugsað um að hætta í dómgæslunni?

„Já, þegar það koma erfiðar hindranir, þá stoppar maður stundum og veltir stöðunni fyrir sér, setur sér ný markmið og veltir því fyrir sér hvort að þetta sé þess virði,“ sagði Georgía. Hún bjóst ekki við að leikmennirnir verði ókurteisir við hana.

„Ég held að þeir verði alls ekki ókurteisari við mig. Ég er ekki að gera þetta í fyrsta skipti,“ sagði Georgía en af hverju eru ekki fleiri konur að dæma?

„Ég væri til í að vita svarið við þeirri spurningu,“ sagði Georgía en það má heyra allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×