Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - ÍBV 2-3 | Sigríður Lára tryggði Eyjakonum bikarinn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Sigríður Lára Garðarsdóttir tryggði ÍBV bikarmeistaratitilinn þegar hún skoraði sigurmarkið gegn Stjörnunni úr vítaspyrnu í framlengingu í úrslitaleik Borgunarbikars kvenna í kvöld. Lokatölur 2-3, ÍBV í vil. Þetta er í annað sinn sem kvennalið ÍBV verður bikarmeistari.

Öfugt við bikarúrslitaleikinn í fyrra, þar sem ÍBV fékk á sig mark á upphafsmínútunni, fengu Eyjakonur draumabyrjun að þessu sinni. Á 4. mínútu komst Cloé Lacasse inn í sendingu Kristrúnar Kristjánsdóttur til baka, lék á Gemmu Fay og skoraði úr frekar erfiðu færi.

Eftir markið tók Stjarnan völdin og stjórnaði ferðinni. Á 41. mínútu þrumaði Harpa Þorsteinsdóttir boltanum fyrir á Öglu Maríu Albertsdóttur sem skoraði af stuttu færi.

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Harpa og kom Stjörnunni í bílstjórasætið. Hún fékk þá boltann inn fyrir vörn ÍBV frá Guðmundu Brynju Óladóttur og kláraði færið vel. Staðan í hálfleik var 2-1, Stjörnunni í vil.

Stjörnukonur fagna eftir að Harpa Þorsteinsdóttir kom þeim í 2-1 undir lok fyrri hálfleiks. vísir/ernir

Stjarnan var áfram með yfirhöndina í seinni hálfleik og Adelaide Anne Gay þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum í marki ÍBV.

Þótt Stjörnukonur væru ívið sterkari stafaði alltaf hætta af Cloé sem var besti maður vallarins í kvöld.

Þegar ein mínúta var til leiksloka renndi hún boltanum þvert fyrir mark Stjörnunnar á Kristínu Ernu Sigurlásdóttur sem ýtti honum yfir línuna og jafnaði metin í 2-2.

Harpa fékk tvö fín færi í fyrri framlengingarinnar en Adelaide bjargaði Eyjakonum.

Á 111. mínútu fékk Cloé boltann vinstra megin á vellinum, keyrði inn á teiginn og féll við. Bríet Bragadóttir benti á punktinn. Afar umdeildur dómur.

Sigríði Láru var alveg sama um það og skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni. Og það reyndist vera sigurmarkið. Lokatölur 2-3, ÍBV í vil og bæði karla- og kvennalið félagsins því bikarmeistarar.

Sigríður Lára fagnar sigurmarkinu. vísir/ernir

Af hverju vann ÍBV?
Eyjakonur sýndu mikinn karakter í leiknum. Þær lentu í vandræðum en komust yfir erfiðustu hjallana, ekki síst fyrir tilstuðlan Adelaide í markinu sem átti afbragðs leik og varði á mikilvægum augnablikum.

Cloé sýndi síðan enn og aftur hversu frábær leikmaður hún er. Sú kanadíska skoraði fyrsta markið, lagði annað markið upp og fiskaði vítaspyrnuna sem sigurmarkið kom úr.

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, henti hinni 15 ára gömlu Clöru Sigurðardóttur inn á þegar 12 mínútur voru eftir og hún átti mjög sterka innkomu og hjálpaði til við að teygja á Stjörnuvörninni. Mikið efni þessi stelpa.

Þessar stóðu upp úr:
Cloé var eins og áður sagði mögnuð í þessum leik sem og Adelaide. Þá spilaði Clara vel þær mínútur sem hún var inn á.

Harpa skoraði og lagði upp í leiknum og hefði á öðrum degi getað skorað þrennu.

Hvað gekk illa?
Varnarleikur Stjörnunnar hefur verið æði misjafn í sumar og hann var ekki til útflutnings í kvöld. Varnarmenn Stjörnunnar réðu lítið við Cloé sem hélt þeim við efnið allar 120 mínúturnar.

Þá nýttu Stjörnukonur ekki þau tækifæri sem þær fengu í stöðunni 2-1 og 2-2. Það reyndist dýrkeypt.

Hvað gerist næst?
Eyjakonur fá væntanlega höfðinglegar móttökur við komuna til Eyja í kvöld. Eftir tvær vikur mæta þær svo Fylki í 17. umferð Pepsi-deildar kvenna.

Stjarnan mætir Breiðabliki á heimavelli eftir tvær vikur.

Ólafur: Brotið á mínum leikmanni rétt fyrir vítaspyrnudóminn

„Við missum bara einbeitingu í eitt augnablik og leikmaður þeirra sleppur upp í hornið og nær góðri fyrirgjöf sem endar með jöfnunarmarki,“ segir Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, sem tapaði fyrir ÍBV í úrslitum Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli í kvöld. 

„Við vorum ekki alveg nægilega góðar í kvöld og eigum að getað spilað betur en þetta.“

ÍBV skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu í síðari hálfleik framlengingarinnar. Það var Sigríður Lára Sigurlásdóttir sem gerði markið.

„Ég sá þennan vítaspyrnudóm ekki nægilega vel en það var brotið á mínum leikmanni hér á hliðarlínunni rétt áður og þar átti að dæma aukaspyrnu.“

Ólafur segist vera mjög ósáttur með þessi úrslit.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa úrslitaleik en í þessum leikjum viljum við vera og því verðum við að geta tekið þessu.“

Ian Jeffs: Það er sko partý í kvöld

„Við gáfumst aldrei upp í dag og byrjuðum leikinn mjög vel, komumst sanngjarnt yfir og svo skora þeir tvö mörk á mjög stuttum tíma,“ segir Ian David Jeffs, þjálfari ÍBV, eftir að liðið hafði tryggt sér bikarmeistaratitilinn.

„Ég sagði bara við stelpurnar í hálfleik að hafa trú á þessu og halda áfram að spila eins og þær gerðu fyrsta hálftímann. Þá myndum við ná að skora. Í framlengingunni fannst mér við bara betra liðið og eiga þetta skilið.“

Hann segist vera alveg gríðarlega stoltur af liðinu.

„Í ár er liðið miklu sterkara andlega og allt annað að undirbúa stelpurnar fyrir leikinn í dag en fyrir ári síðan.“ ÍBV er því bikarmeistari bæði í karla og kvennaflokki í ár.

„Það verður sko partý í kvöld.“

Sigríður Lára: Kom enginn annar til greina nema ég

„Ég er gríðarlega stolt af liðinu, þjálfarateyminu og stuðningsmönnum okkar. Þetta gerist bara ekki betra,“ segir Sigríður Lára Garðarsdóttir, hetja Eyjamanna eftir leikinn í kvöld.

„Það er gríðarlegur karakter í þessu liði. Við höfum í tvígang lent undir í sumar og komið til baka aftur,“ segir Sissý sem skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu.

„Það kom enginn annar til greina nema ég, enda búin að taka öll vítin í sumar. Ég var alveg ákveðin að taka þetta. Það var ekkert mikið stress í mér, kannski má. Þetta er bara frábært, þetta er geggjað, þetta er ólýsanleg tilfinning.“

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Laugardalsvellinum og tók myndirnar hér fyrir neðan.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.