Körfubolti

Strákarnir rústuðu Svíum og eru komnir í 8-liða úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Jónsson sneri aftur eftir meiðsli og var stigahæstur í íslenska liðinu.
Kári Jónsson sneri aftur eftir meiðsli og var stigahæstur í íslenska liðinu. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri er komið í 8-liða úrslit á EM eftir stórsigur á Svíum, 39-73, í dag.

Ísland er ekki bara komið í 8-liða úrslit heldur er það öruggt með áframhaldandi sæti í A-deild Evrópumótsins.

Í upphafi leiks benti ekkert til þess að Íslendingar myndu vinna 34 stiga sigur. Svíar byrjuðu af miklum krafti og um miðjan 1. leikhluta var staðan 14-2, sænsku strákunum í vil.

Það reyndist lognið á undan storminum. Íslenska vörnin skellti hreinlega í lás og á síðustu 35 leiksins fékk Ísland aðeins 25 stig á sig.

Íslensku strákarnir náðu forystunni undir 1. leikhluta og litu ekki til baka eftir það. Þeir hreinlega rúlluðu yfir ráðalausa Svía.

Staðan í hálfleik var 21-40, Íslandi í vil, og í seinni hálfleik breikkaði bilið. Á endanum munaði 34 stigum á liðunum, 39-73.

Tryggvi Snær Hlinason átti enn einn stórleikinn fyrir Ísland á mótinu. Bárðdælingurinn skoraði 13 stig, tók 12 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og varði tvö skot.

Eftir að hafa misst af síðasta leik vegna meiðsla sneri Kári Jónsson aftur í íslenska liðið og skoraði 15 stig.

Breki Gylfason kom öflugur af bekknum og skilaði 10 stigum, sex fráköstum og fjórum stoðsendingum. Kristinn Pálsson skoraði einnig 10 stig.

Það kemur í ljós síðar í dag hvort Ísland mætir Ísrael eða Ítalíu í 8-liða úrslitunum á morgun.

Leikinn má sjá hér að neðan og tölfræði leiksins má nálgast með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Naumt tap gegn Frökkum

U20 ára landslið Íslands í körfubolta töpuðu gegn því franska, 50-58 í fyrsta leik liðsins í A-deildinni á Evrópumóti U20 landsliða sem fer fram í Grikklandi.

Tryggvi öflugur í fyrsta sigri strákanna

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri vann góðan sigur á Svartfjallalandi, 50-60, í B-riðli A-deildar Evrópumótsins á Krít í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×