Innlent

Ferðamennirnir gætu átt yfir höfði sér frekari sekt vegna lambsdrápsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lambið fannst dautt í poka í húsbíl ferðamannanna. Myndin er úr safni.
Lambið fannst dautt í poka í húsbíl ferðamannanna. Myndin er úr safni. vísir/pjetur
Matvælastofnun hefur óskað eftir gögnum frá lögreglu um lambsdrápið á Austurlandi á sunnudagskvöld. Stofnunin mun í framhaldinu taka afstöðu til málsins en mennirnir átta sem slátruðu lambinu gætu átt yfir höfði sér sektargreiðslu upp á allt að eina milljón króna.

Fannst dautt í poka

Um er að ræða átta erlenda ferðamenn sem voru handteknir við Breiðdalsvík eftir að hafa elt lambið uppi og aflífað það með því að skera það á háls. Lambið fannst dautt í poka í húsbíl ferðamannanna. Lögreglan á Austurlandi sektaði mennina um 120 þúsund krónur fyrir brot á eignaspjöllum.

Dýraverndunarsamband Íslands sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að vinnubrögð lögreglu í málinu væru gagnrýniverð enda hefði MAST átt að hafa yfirumsjón með málinu, og sendu stofnuninni formlegt erindi þess efnis.

Alvarlegt mál

Þóra J. Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að stofnunin líti málið alvarlegum augum og að búið sé að óska eftir öllum málsgögnum.

 „Við fengum enga tilkynningu um málið frá lögreglu en þetta gerðist á þeim tímapunkti sólarhrings sem Matvælastofnun er ekki opin. Það er vissulega bagalegt að það skuli ekki vera bakvakt hjá MAST, bæði ef það koma upp alvarlegir smitsjúkdómar eða brot á dýravelferðarlögum, eins og þetta. En þetta er staðan eins og er,“ segir Þóra í samtali við Vísi.

Þeir gætu, lögum samkvæmt, átt von á kæru eða frekari sektargreiðslu í framhaldinu. „Heildarramminn í lögunum er frá tíu þúsund krónum að einni milljón,“ segir hún. „Þetta er hræðilegt mál og samkvæmt íslenskum lögum er alfarið bannað að slátra dýrum án deyfingar. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×