Innlent

„Ég vil ekki að fólk sé að teppa neyðarlínuna“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata og ritstjóri Sannleikans, segist alls ekki hvetja til þess að fólk teppi neyðarlínuna
Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata og ritstjóri Sannleikans, segist alls ekki hvetja til þess að fólk teppi neyðarlínuna

„Líf grínistans samræmist kannski ekki lífi stjórnmálamannsins. Jú, ég er varaþingmaður en ekki þingmaður,“ segir Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata og ritstjóri Sannleikans, í samtali við Vísi.

Facebook færsla Andra Þórs hefur vakið mikla athygli í dag þar sem hann segir að til að sýna að fólk sé á móti sýnilegum vopnaburði lögrelgunnar geti það hringt á lögregluna og tilkynnt grunsamlega vopnaða menn þegar það sér byssur.

„Ef nógu margir hringja stöðugt í neyðarlínuna vegna ógnandi manna með skotvopn þá geta þeir þetta ekki. Það er ekki verjandi fyrir ríkislögreglustjóra að halda þessu til streitu með fleiri hundruð tilkynningar um hættulega einstaklinga í hvert skipti sem löggan festir á sig vopnin,“ skrifar Andri Þór.

Hann segist þó ekki vilja að fólk teppi neyðarlínuna, heldur hafi hann verið að reyna að fá fólk til að líta á málið frá mismunandi sjónarhornum. Andri Þór hefur í mörg ár haldið úti satírumiðlinum Sannleikanum. Þar segist hann reyna að fá fólk til að hugsa, gantast að sjálfu sér, samfélaginu og fréttamennsku.

„Satíran er þannig. Auðvitað er það kómísk hugmynd að hringja á lögregluna út af lögreglunni. Það er það kómíska. Auðvitað er ekkert gaman ef fólk trúir því að maður vilji teppa neyðarlínuna og skapa einhverja hættu. Það er bara ekki rétt. Ég held að við myndum aðeins staldra við, bara með kaffibollann, þegar við erum að lesa og horfa á fréttir, þá myndum við sjá að það er óþarfi að vera svona æstur,“ segir Andri Þór. 

„Ég vil ekki að fólk sé að teppa neyðarlínuna. Þó að ég komi með eitthvað svona. Mér finnst eins og við hugsum aldrei, við erum alltaf svo snögg að verða reið og brjáluð í staðinn að lesa hvað er verið að segja, melta það og ræða það síðan. Það er alltaf einhver óvinur sem við búum til sem við þurfum að hata og ráðast á.“

„Ég vil fá fólk til að hugsa hluti frá fleiri en einu sjónarhorni. Ég get ekkert haldið Sannleikanum úti lengur ef ég þarf alltaf að vera hálfu dagana í sambandi við blaðamenn. Þá er kannski ekkert pláss á Íslandi fyrir grínista.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.