Handbolti

Umfjöllun: Ísland - Úkraína 34-26 | Strákarnir komnir á tíunda Evrópumótið í röð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna í leikslok.
Íslensku strákarnir fagna í leikslok. vísir/anton

Ísland tryggði sér sæti á EM 2018 í handbolta með stórsigri á Úkraínu, 34-26, í Laugardalshöllinni í kvöld.

Íslendingar eru því á leið á tíunda Evrópumótið í röð en strákarnir hafa verið með á öllum Evrópumótum frá árinu 2000.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Laugardalshöllinni í kvöld og tók myndirnar sem má sjá hér að neðan.

Sóknarleikurinn var slakur í tapinu fyrir Tékkum á miðvikudaginn en það var allt annað uppi á teningnum í kvöld.

Sóknin gekk smurt og þá skoraði íslenska liðið mörg mörk eftir hraðar sóknir. Guðjón Valur Sigurðsson fór þar fremstur í flokki en fyrirliðinn minnti okkur í kvöld enn og aftur á hversu einstakur leikmaður hann er. Guðjón Valur var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk.

Aron Rafn Eðvarðsson hóf leikinn í markinu í stað Björgvins Pál Gústavssonar og Hafnfirðingurinn átti skínandi góðan leik og varði 15 skot.

Íslendingar náðu fljótlega yfirhöndinni í leiknum en gekk erfiðlega að slíta ólseiga Úkraínumenn af sér.

Góður kafli undir lok fyrri hálfleiks þýddi hins vegar að staðan í hálfleik var 18-13, Íslandi í vil.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Íslensku strákarnir náðu góðu forskoti sem þeir létu ekki af hendi. Á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 34-26.

Alls komust 10 Íslendingar á blað í leiknum í kvöld. Guðjón Valur var sem áður sagði markahæstur með átta mörk. Ólafur Guðmundsson skoraði fimm mörk líkt og Aron Pálmarsson. Auk þess dældi Aron út stoðsendingum eins og honum er einum lagið.

Rúnar Kárason, Arnar Freyr Arnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoruðu allir fjögur mörk og þeir tveir síðastnefndu voru auk þess öflugir í vörninni.

Ísland endaði í 3. sæti riðils 4 en fer áfram sem liðið með bestan árangur í 3. sæti riðlanna sjö í undankeppninni.

Mörk Íslands:
Guðjón Valur Sigurðsson 8/3, Ólafur Guðmundsson 5, Aron Pálmarsson 5, Rúnar Kárason 4, Arnar Freyr Arnarsson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 4, Ómar Ingi Magnússon, Arnór Þór Gunnarsson, Bjarki Már Gunnarsson 1, Janus Daði Smárason 1.

Varin skot:
Aron Rafn Eðvarðsson 15.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.