Íslenski boltinn

Andri Rúnar búinn að ná bronsskó síðasta árs í átta leikjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andri Rúnar hefur skorað í fimm deildarleikjum í röð.
Andri Rúnar hefur skorað í fimm deildarleikjum í röð. vísir/andri marinó

Andri Rúnar Bjarnason, framherji spútnikliðs Grindavíkur í Pepsi-deild karla í fótbolta, heldur áfram að skora en hann setti tvö mörk í gær þegar Grindjánar unnu ÍBV, 3-1, í áttundu umferð deildarinnar.

Hann á stóran þátt í því að Grindavík er með 17 stig í öðru sæti Pepsi-deildarinnar eftir átta umferðir en liðið verður í öðru sætinu sama hvernig fer í leikjunum fjórum í kvöld þar sem Grindavík er með fjögurra stiga forskot á Stjörnuna sem er í þriðja sæti.

Andri Rúnar er búinn að skora í heildina níu mörk í átta fyrstu leikjum sumarsins og væri, eins og fótboltaáhugamaðurinn Stefán Arnar Ómarsson bendir á á Twitter, nú þegar kominn með bronsskóinn á síðustu leiktíð.

Króatinn Hrvoje Tokic, sem lék með Víkingi Ólafsvík síðasta sumar, fékk bronsskó Adidas fyrir að skora níu mörk í 21 leik í fyrra en sama fjölda náði Martin Lund Pedersen, frmaherji Fjölnis. Báðir gengu í raðir  Breiðabliks eftir tímabilið.

Andri Rúnar er með þriggja marka forskot á Steven Lennon í baráttunni um gullskóinn en hann er búinn að skora tveimur mörkum inna en FH-ingarnir Lennon og Kristján Flóki Finnbogason til saman. Þeir eru í öðru og þriðja sæti með sex og fimm mörk.

Andri er búinn að skora í fimm leikjum í röð en eftir 3-1 tap á heimavelli fyrir Ólsurum í fjórðu umferð er Grindavík búið að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum og safna þrettán stigum af fimmtán mögulegum.

Framherjinn magnaði, sem skoraði sjö mörk í 17 leikjum í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð, er búinn að tryggja Grindavík 1-0 sigra á Val og KR, stig á móti FH og skora þrennu á móti Grindavík og tvennu á móti ÍBV.

Næsta varnarlína sem fær að spreyta sig gegn heitasta framherja deildarinnar er Breiðablik en Blikar taka á móti Grindjánum í sjónvarpsleik næsta mánudag.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.