Innlent

Borgarstjóri furðar sig á lágflugi herflugvélar á Reykjavíkurflugvelli

Anton Egilsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Skjáskot

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, furðar sig á lágflugi herflugvélar á Reykjavíkurflugvelli í dag og telur að það sé án efa brot á starfsleyfi flugvallarins. Kanadísk F-18 herþota tók á loft á flugvellinum í dag í tilefni Flugdagsins.

Flugdagurinn var haldinn hátíðlegur á Reykjavíkurflugvelli í dag en þetta er í tólfta skipti sem dagurinn er haldinn. Eitt aðalatriði Flugdagsins var sýning kanadískrar F-18 herþotu en þetta er í fyrsta sinn á þessari öld sem að þota af þessari gerð tekur þátt.

Dagur segist í færslu á Facebook síðu sinni ekki kannast við að gefið hafi verið leyfi fyrir lágflugi herflugavélar yfir miðborginni í dag.

„Ég hef verið spurður hvort leyfi hafi verið gefið fyrir lágflugi herflugvélar yfir miðborginni í dag ég kannast ekki við það. Það hefur verið deilt um flest á Reykjavíkurflugvelli nema það að herflugvélar eiga þar ekki heima nema sem þátttakendur í björgunartengdum verkefnum eða öðrum sérstökum ástæðum. Herflugvélar á Reykjavíkurflugvelli eru þvert á móti skýrt brot á samningi ríkis og Reykjavíkurborgar frá 2013 sem tilgreinir einmitt þetta.“

Segir hann málið þarfnast nánari skýringa.

„Ítrekað lágflug svo hávaðasamra véla einsog átti sér stað í dag yfir íbúðabyggð og friðlandi fugla á viðkvæmasta varptíma er jafnframt fáránlegt og án efa brot á starfsleyfi flugvallarins. Borgaryfirvöld hafa aldrei gert athugasemdir við að haldnir séu fjölskyldudagur flugsins á vellinum. Og skrautflug farþegavéla flugfélaga í tilefni afmælis getur alveg átt við og verið skemmtileg - enda eðli málsins samkvæmt sérstök undantekningartilvik. Gríðarlega hávaðasamar herflugvélar í lágflugi eru annað mál. Þetta mál þarfnast skýringa.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.