Handbolti

KA hættir samstarfi við Þór í karlahandboltanum en útilokar ekki samstarf hjá konunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lið KA og Þórs mættust í bikarúrslitaleik 4. flokks í vetur og framtíðin er greinilega björt hjá báðum þessum félögum.
Lið KA og Þórs mættust í bikarúrslitaleik 4. flokks í vetur og framtíðin er greinilega björt hjá báðum þessum félögum. Mynd/ka.is

KA, Þór og ÍBA hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna framtíð handboltans á Akureyri sem hefur verið í mikilli óvissu frá því að Íslandmótinu lauk og ljóst var að Akureyrarliðið var fallið í 1. deild.

KA vildi ekki lengur samstarf en Þór var til í framhald á samvinnu félaganna undir merkjum Akureyrarliðsins sem hefur verið til frá árinu 2006.

KA, Þór og ÍBA hafa nú komist að niðurstöðu og sent frá sér yfirlýsingu vegna handboltans á Akureyri.

Þar kemur fram að KA vill tefla fram sínu eigin karlaliði næsta vetur en að félagið sé jafnframt tilbúið að skoða samstarf við Þór um rekstur kvennaliða félaganna. Þannig er þetta í fótboltanum þar sem Þór/KA teflir fram sameiginlegu liði í kvennaflokki en í karlaflokki starf KA og Þór sér.

Öll Akureyrarliðin verða utan efstu deildar næsta vetur, bæði karlaliðin (Þór og KA) og kvennaliðið (KA/Þór). Þetta verður fyrsta tímabilið frá 1984-85 þar sem Akureyri á ekki lið í efstu deild handboltans á Íslandi.

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna sem líka finna má á heimasíðum félaganna:


Yfirlýsing frá KA, Þór og ÍBA vegna handboltans á Akureyri

Undanfarnar vikur hafa átt sér stað viðræður milli KA og Þórs með milligöngu ÍBA um áframhaldandi samstarf félaganna um rekstur Akureyri handbolta og KA/Þórs í  kvennahandbolta.

Félögin hafa skipst á hugmyndum sínum og framtíðarsýn um uppbyggingu handknattleiks á Akureyri og skoðað alla möguleika á frekara samstarfi. Í þeim viðræðum hefur komið í ljós að félögin hafa mismunandi sýn á það hvernig best sé að standa að rekstri, samstarfi og uppbyggingu handboltans á Akureyri.

KA hefur því í framhaldinu ákveðið að ekki sé þörf á frekari viðræðum og samstarfi félaganna um rekstur sameiginlegs liðs undir merkjum Akureyrar handbolta. Félögin útiloka ekki samstarf í rekstri kvennaflokka.

Þór og KA þakka fulltrúum ÍBA fyrir sín störf í viðræðunum og óska hvort öðru velfarnaðar í uppbyggingu og keppni á handboltavellinum næstu árin.

Fyrir hönd félaganna

Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA

Valdimar Pálson framkvæmdastjóri Þórs


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.