Innlent

Fóru húsavillt í Garðabæ og rifu þakið af röngu húsi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Diðrik Ísleifsson, sem er smiður, segist ekki hafa lent sjálfur í sambærilegu atviki.
Diðrik Ísleifsson, sem er smiður, segist ekki hafa lent sjálfur í sambærilegu atviki. vísir/erla björg

Verktakar fóru húsavillt í gær þegar þeir hugðust skipta um þak á húsi við Brekkubyggð 51 í Garðabæ. Þeir voru hálfnaðir með verkið þegar upp komst um mistökin. Eigandinn hélt að verið væri að stríða sér þegar honum var tilkynnt um málið.

Vissi ekki um hvað maðurinn var að tala
„Hann hringdi í mig verktakinn og sagðist vera búinn að rífa járnið af húsinu mínu. Ég varð bara alveg gáttaður á þessu og vissi ekki um hvað maðurinn var að tala,“ segir eigandinn, Diðrik Ísleifsson, en sonardóttir hans, sem býr í húsnæðinu, varð vör við framkvæmdirnar.

„Hún varð ekki vör við neitt fyrr en þeir voru hálfnaðir að rífa af þakinu. Þá fór hún út og spurði hvað þeir væru að gera en þetta voru útlendingar sem skildu hana ekki. Verkstjórinn kom svo skömmu síðar og hringdi þá í mig til þess að bera þetta undir mig. Þá kom í ljós að þeir hefðu farið húsavillt.“

Hér má sjá járnið sem rifið var af þakinu. vísir/erla björg

Járnið ónýtt
Járnið sem rifið var af er ónýtt og nú er aðeins pappi á þakinu. Þakið verður lagað en að sögn Diðriks mun það taka nokkurn tíma, enda þarf að panta allt efni og fleira.

„Það á eftir að panta allt, smíða og fleira og ekki hægt að byrja á þessu fyrr en í næstu viku. Það þarf að eiga allt í svona lagað áður en það er hægt að byrja.“

Diðrik er sjálfur smiður en aðspurður segist hann aldrei hafa lent í sambærilegu atviki. „Nei það hef ég ekki gert,“ segir hann og hlær, en þrátt fyrir leiðinleg mistök sér hann spaugilegu hliðina á þeim.

Vinna er þegar hafin á þaki rétta hússins, sem er skammt frá, eða við Brekkubyggð 67-69.

Járnið er ónýtt og aðeins pappi er á þakinu. vísir/erla björg


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.