Körfubolti

Tíu ár í dag frá einni mikilvægustu körfu KR í körfuboltanum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson fyrir tíu árum.
Brynjar Þór Björnsson fyrir tíu árum. Vísir/Vilhelm

„Brynjar, þristur, Brynjar, Brynjar, þristur,“ heyrist oft sungið af stuðningsmönnum KR og ekki af ástæðulausu. Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR-liðsins í dag, hefur skorað ófáar þriggja stiga körfurnar í gegnum tíðina og fyrir nákvæmlega tíu árum síðan þá skoraði hann eina mikilvægustu körfuna í sögu körfuboltans í KR.

5. apríl 2007 tryggði Brynjar KR-liðinu nefnilega framlengingu í oddaleik á móti Snæfelli þegar liðin voru að spila um sæti í úrslitaeinvíginu um titilinn. Brynjar jafnaði metin í 68-68 og KR vann síðan 76-74 eftir framlengingu.

Brynjar var þarna átján ára gamall en hann skoraði alls tíu stig og þrjá þrista í leiknum. Stigin og þriggja stiga körfurnar hans hafa síðan verið áberandi í sigurgöngu KR-liðsins í körfuboltanum.

KR fór í úrslitaeinvígið 2007 þar sem liðið vann 3-1 sigur á Njarðvík. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Brynjars með KR en nú tíu árum síðar eru þeir orðnir sex.

Brynjar fær ennfremur gott tækifæri til að bæta sjöunda Íslandsmeistaratitlinum við í úrslitakeppninni í ár og hann er ekki enn búinn að halda upp á 29 ára afmælisdaginn sem rennur ekki upp fyrr en í sumar.

Það er rétt hægt að ímynda sér hvað hefði gerst fyrir KR-liðið hefði það misst af Íslandsmeistaratitlinum 2007.  Það má því líta á þessa þriggja stiga körfu sem upphafi af ótrúlegri sigurgöngu KR-liðsins.

Það eru margir aðrir leikmenn og margar aðrar stórar körfur sem eiga líka sinn sess á þessum ótrúlegu og sigursælu árum í Vesturbænum. Karfan hans Brynjars gleymist samt seint aldrei og það er svolítið skrýtið að það séu liðinu tíu ár frá þessu eftirminnilega skírdagskvöldi í DHL-höllinni.

Þriðji leikur KR og Keflavíkur í undanúrslitum Domino´s deildar karla verður á föstudaginn og að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Staðan er 1-1 eftir sigur Keflvíkinga í síðasta leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.