Körfubolti

Kristófer Acox: Var að spila á móti strákum sem eru kannski að fara í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox lenti á Íslandi í morgun og ætlar að spila næsta leik með KR í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta en annar leikur Keflavíkur og KR fer fram á mánudagskvöldið.

Kristófer er landsliðsmaður og því mikill liðstyrkur fyrir hið sterka lið KR sem vann 19 stiga sigur á Keflavík í fyrsta leik undanúrslitanna.

Kristófer hefur undanfarin fjögur ár leikið með Furman í bandaríska háskólakörfuboltanum og setti meðal annars skólamet í skotnýtingu auk þess að skora yfir þúsund stig í leikjum með skólanum.

Kristófer mætti á fyrstu æfingu með KR-liðinu í kvöld en hann hefur spilað með mörgum strákanna áður, bæði með landsliðnu og með KR áður en hann fór út í skóla.

„Ég lenti bara í morgun og fer bara á fyrstu æfingu á eftir. Svo sjáum við bara til hvernig þetta verður á mánudaginn,“ sagði Kristófer Acox í viðtali við Guðjón Guðmundsson.

„Það er mikil tilhlökkun enda fjögur ár síðan að ég spilaði síðast heima. Ég held að ég geti fullyrt það að ég hafi bætt mig mikið á þessum tíma í skólanum. Ég er búinn að æfa mikið og ég hef líka eytt tíma í að bæta minn leik á sumrin. Ég geng mjög sáttur frá þessu,“ sagði Kristófer.

„Það er mjög mikill agi þarna úti og körfuboltinn er líka allt öðruvísi en hér heima. Þú ert að spila með meiri íþróttamönnum og að spila á móti strákum sem eru kannski að fara í NBA,“ sagði Kristófer.

„Planið er að koma heim í eitt ár en ég sé það meira eftir sumarið hvernig þetta fer. Vonandi næ ég að gera eitthvað á Eurobasket en ég veit meira eftir sumarið,“ sagði Kristófer.

„Ég held að það sé best fyrir mig að koma heim í eitt ár og spila mína réttu stöðu. Ég ætla að leggja áherslu á það í sumar og komast í það að spila aðra stöðu en ég hef verið að gera út í Bandaríkjunum. Ísland er mjög góður staður fyrir það,“ sagði  Kristófer en það má sjá allt innslag Gaupa í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Kristófer: Vildi gefa fólkinu eitthvað til að japla á

Kristófer Acox, leikmaður Furman-háskólans og íslenska landsliðsins í körfubolta, segist hafa verið að stríða landanum er hann birti mynd af pizzusneið á Twitter-síðu sinni í gær en hann hefur heyrt orðrómana um að hann sé að snúa aftur í KR-treyjuna.

Kristófer Acox tekur slaginn með KR í úrslitakeppninni

Ógnarsterkt lið KR-inga fékk í dag liðsstyrk þegar staðfest var að landsliðsmaðurinn Kristófer Acox myndi leika með liðinu það sem eftir lifir úrslitakeppninnar en Kristófer kemur aftur í lið KR eftir að hafa leikið með Furman í bandaríska háskólaboltanum undanfarin ár.

Kristófer: Get ekki beðið eftir að spila aftur með KR

Kristófer Acox lenti á Íslandi í morgun og er orðinn löglegur leikmaður KR. Hann verður með Íslandsmeisturunum í öðrum leik liðsins gegn Keflavík. Kristófer hefur undirbúið þessa heimför síðan í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×