Sport

Konur eru 4-8 sinnum líklegri til að slíta krossbönd en karlar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Krossbandaslit hafa verið tíð íslenskum afrekskonum að undanförnu.

Sandra María Jessen og Dóra María Lárusdóttir, landsliðskonur í fótbolta, slitu báðar krossbönd í leik gegn Noregi á Algarve-mótinu. Þá sleit handboltakonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir krossbönd í vináttulandsleik Íslands og Hollands á dögunum.

En er konum hættara við krossbandaslitum en körlum? Guðjón Guðmundsson kynnti sér málið.

„Konur eru t.d. með öðruvísi byggða mjaðmagrind en karlar, þannig að álagið er annað á hnén. Það þarf að fókusa meira á konurnar, t.d. hvernig lendingatæknin þeirra er og hlaupaform yfir höfuð,“ sagði Guðjón Örn Ingólfsson, íþróttafræðingur og styrktarþjálfari, í samtali við Gaupa í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það er talað um að konur séu 4-8 sinnum líklegri til að slíta krossbönd en karlmenn, út af þessari blessuðu mjaðmauppbyggingu.“

Guðjón segir að þjálfun á þessu sviði sé ábótavant.

„Það má segja það. Það verður einblína öðruvísi á þjálfunina og byrja fyrr að byggja þennan grunn. Það þarf að byrja að byggja grunninn strax þegar við erum að vaxa og byggja svo ofan á það þegar við eldumst. Þær eru líklegastar til að slíta krossbönd á aldrinum 15-25 ára,“ sagði Guðjón.

Að sögn Guðjóns er styrktarþjálfun afar mikilvæg en hún hjálpar til við að fyrirbyggja meiðsli.

„Konur þurfa bara að lyfta. Þær eru með öðruvísi hormónakerfi en karlmenn og þurfa jafnvel að lyfta meira en þeir yfir keppnistímabilið,“ sagði Guðjón.

„Það er hægt að koma í veg fyrir slatta af krossbandameiðslum bara með því að nota styrktarþjálfunina. Þú getur ekki komið í veg fyrir högg og eitthvað slitni en t.d. í hraðabreytingum og hoppum er klárlega hægt að koma í veg fyrir hin og þessi meiðsli.“

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.