Innlent

Vinna sjálfboðaliða á leikskólum gagnrýnd

Sveinn Arnarsson skrifar
Skúli Helgason
Skúli Helgason

Dæmi eru um að leikskólar Reykjavíkurborgar nýti sér sjálfboðaliða til starfa. Er bæði um að ræða leikskóla sem rekinn er beint af Reykjavíkurborg en einnig einkarekna leikskóla sem fá úthlutað rekstrarfé frá borginni.

Um er að ræða leikskólann Björtuhlíð, leikskóla sem Reykjavíkurborg rekur. Þar hafa verið nýttir sjálfboðaliðar í nokkur ár án þess að gerður hafi verið ráðningarsamningur við sjálfboðaliða eða þeim greitt fyrir vinnu sína.

Er þetta að mati Alþýðusambands Íslands skýrt brot á kjarasamningum þar sem verið er að ganga í störf almennra starfsmanna sem um gilda kjarasamningar.

Einnig eru einkareknu leikskólarnir Waldorfskólinn Sólstafir og Waldorfskólinn Höfn auk Sælukots með sjálfboðaliða. Fá þessir leikskólar greitt í samræmi við barnafjölda á leikskólanum úr borgarsjóði á sama hátt og aðrir leikskólar.

Snorri Traustason, leikskólastjóri Waldorfskólans Sólstafa, neitaði að tjá sig um sjálfboðaliðana sem eru á hans leikskóla. Tveir sjálfboðaliðar starfa á leikskólanum núna og hefur leikskólinn haft sjálfboðaliða í mörg ár innan sinna raða. Fullyrt er þó að sjálfboðaliðar gangi ekki inn í launuð störf og því sé ekki um brot á lögum um kjarasamninga að ræða.

Í engu þessara tilvika var fallist á þá kröfu Alþýðusambands Íslands að gera ráðningarsamninga við sjálfboðaliðana þegar eftir því var leitað.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs borgarinnar, segist leggja mikla áherslu á að standa rétt að málum og að hann hafi ekki haft vitneskju um þessa sjálfboðaliða. Mikilvægt sé að farið sé að lögum og reglum í þessu sambandi.

„Við leggjum mikla áherslu á að eiga gott samstarf, bæði við Félag grunnskólakennara, leikskólakennara sem og Alþýðusambandið. Við leggjum metnað í að fara eftir settum lögum og reglum. Ég hef látið fræðslusvið borgarinnar skoða þessi mál gaumgæfilega til að fá frekari upplýsingar um málið,“ segir Skúla Helgason.

Fréttin birtist fyrst í FréttablaðinuAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.