Körfubolti

Benedikt Guðmunds: Danero Thomas hefur yfirgefið leikmannahópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danero Thomas.
Danero Thomas. Vísir/Ernir

Danero Thomas verður ekki með Þórsliðinu í kvöld þegar liðið heimsækir Skallagrím í nýliðaslag í Fjósinu í Borgarnes.

Leikur Skallagríms og Þórs hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Strax á eftir leiknum verður síðan Körfuboltakvöld með Kjartani Atla og félögum.

Danero Thomas hefur verið í stóru hlutverki hjá nýliðum Þórs í vetur en aðeins Darrel Keith Lewis hefur skorað fleiri stig en hann.

Danero Thomas var óvænt ekki í leikmannahópi Þórs í bikarleik á móti Grindavík og þjálfarinn Benedikt Guðmundsson staðfestir það við heimasíðu Þórs að leikmaðurinn sé farinn frá félaginu.

„Varðandi hópinn okkar þá hefur Danero Thomas yfirgefið leikmannahópinn síðan síðasta deildarleik. Þá lenti Þröstur Leó í smá vinnuslysi í vikunni og hefur ekkert æft og við munum meta stöðuna á honum bara rétt fyrir leik. Sindri Davíðs er einnig tæpur að þessu sinni en ef ég þekki hann rétt þá lætur hann á meiðslin reyna í fjósinu“ segir Benedikt Guðmundsson í samtali við thorsport.is.

Danero Thomas er með 16,6 stig, 7,1 frákast og 3,1 stoðsendingu að meðaltali á 30,2 mínútum í leik með Þór í Domino´s deild karla. Hann var í byrjunarliðinu í öllum þrettán leikjunum sem hann spilaði.

Danero Thomas hefur nú spilað með fimm félögum á Íslandi síðan að hann kom fyrst til KR tímabilið 2012-13. Hann var með Hamar tímabilið 2013-14, lék með bæði Val og Fjölni 2014-15 en var nú á sínu öðru tímabili með Þór Akureyri.

Það má búast við því að Danero Thomas verði búinn að finna sér sitt sjötta félag hér á landi áður en félagsskiptaglugginn lokar á ný.  Hvert það verður kemur seinna í ljós.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.