Innlent

Réðu 104 sjálfboðaliða þótt lagaheimild vanti

Sveinn Arnarsson skrifar
Mörg verkefni voru í stígagerð vegna fjölgunar ferðamanna til landsins.
Mörg verkefni voru í stígagerð vegna fjölgunar ferðamanna til landsins. vísir/vilhelm
Umhverfisstofnun réði til sín rúmlega eitt hundrað sjálfboðaliða í fyrra og unnu þeir 1.750 dagsverk fyrir stofnunina við stígagerð og náttúruvernd. Einkaaðilum er ekki leyfilegt að ráða sjálfboðaliða til vinnu og Umhverfisstofnun getur ekki bent á lög sem heimili stofnuninni að ráða til sín sjálfboðaliða til starfa.

Í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að lög um náttúruvernd fjalli ekki með beinum hætti um störf sjálfboðaliða.

„Stofnunin hefur undanfarin 40 ár verið með sjálfboðaliða á sínum snærum í verkefnum tengdum náttúruvernd. Umhverfisstofnun annast umsjón og rekstur náttúrverndarsvæða samkvæmt lögum auk þess að sinna fræðsluhlutverki,“ segir í svari Ólafs Jónssonar, sviðsstjóra náttúrusviðs Umhverfisstofnunar.

Kristín Linda árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Síðastliðið sumar var eiganda gistiheimilis í Skjaldarvík norðan Akureyrar bannað að ráða til sín sjálfboðaliða til starfa á gistiheimilinu. Voru þar sjálfboðaliðar á sérstökum háskólastyrkjum, svokölluðum Erasmus-styrkjum, sem komu í Skjaldarvík, unnu við gistiheimilið og unnu í sumum tilvikum að meistaraverkefnum í erlendum háskóla. Var gistiheimilinu gert að greiða þeim laun fyrir vinnu sína.

Samkvæmt lauslegum útreikningum sparar Umhverfisstofnun um 30 milljónir króna á lágmarkstaxta. Einnig fékk stofnunin 7,3 milljóna styrk árið 2015 svo tekjur koma einnig á móti.

Ólafur segir störfin þannig að erfitt sé að fá verktaka til að vinna verkin og þau séu langt frá mannabyggðum.

„Störf sjálfboðaliða hafa breyst töluvert undanfarin ár, ekki síst með ört vaxandi fjölgun ferðamanna. Í dag sinna sjálfboðaliðar nánast einvörðungu störfum þar sem erfitt er að fá verktaka til verksins, oft mannaflsfrek verkefni þar sem lítillar þekkingar eða reynslu er krafist, verkefni sem eru smá í sniðum, eða á svæðum fjarri byggð sem eru viðkvæm í eðli sínu og erfitt að koma tækjum að,“ segir Ólafur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×