Innlent

Hafa náð sátt í erfiðum málum og ætla að endurskoða peningastefnuna

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar verður líklega kynnt í lok vikunnar. Endurskoðun peningastefnunnar verður hluti af stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar og flokkarnir þrír hafa náð samkomulagi um stefnu í sjávarútvegs- og Evrópumálum.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði á Bessastöðum daginn fyrir gamlársdag að Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn hefðu náð samkomulagi í sjávarútvegs- og Evrópumálum.

„Þessi mál bæði hafa tekið tíma og ég held að það sé komin ágætis sátt um þau,“ sagði Bjarni. Í orðum hans fólust stór pólitísk tíðindi en þýða þau að þrátt fyrir gjörólíka stefnu Bjartrar framtíðar og Viðreisnar annars vegar og Sjálfstæðisflokksins hins vegar í sjávarútvegs- og Evrópumálum hafa flokkarnir þrír náð niðurstöðu um málamiðlun sem allir geta sætt sig við. 

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar staðfestir að flokkarnir þrír hafi náð góðu samkomulagi í sjávarútvegs- og Evrópumálum. 

„Ég held að við séum með sameiginlegan skilning á þessum málum í meginatriðum. Menn spyrja, hvað þýða formlegar viðræður í staðinn fyrir óformlegar, í mínum huga þá eru menn tilbúnir að setja á blað það sem þeir hafa talað um og þar erum við akkúrat núna og munum gera á næstu dögum,“ segir Benedikt. 

Bjarni Benediktsson er hann kom á fund forseta daginn fyrir gamlársdag. Í kjölfarið var því lýst yfir að viðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar væru formlega hafnar. Vísir/Stefán

Ný ríkisstjórn þessara þriggja flokka láta endurskoða peningastefnuna. Núverandi peningastefna byggir á svokölluðu verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem var innleitt í mars 2001. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra minntist líka á þetta í ávarpi sínu á gamlársdag.

„Það er sátt milli þessara flokka um að fara í slíka endurskoðun án þess að við gefum okkur niðurstöðuna. Ég held að það sjái allir að við fljótum að feigðarósi ef gengið heldur áfram að styrkjast dag frá degi. Það getur ekki haft annað en slæm á hrif á útflutningsgreinar Íslands. Í því fann maður samhljóm með forsætisráðherranum í gær þótt hann sé ekki á leiðinni í þetta stjórnarsamstarf,“ segir Benedikt.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er unnið út frá því að ný ríkisstjórn verði kynnt í lok þessarar viku.

„Einhver sagði að þetta yrði klárað áður en þingið byrjar en ég er að vonast til þess að við klárum þetta á næstu dögum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.