Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi samúðarkveðjur til Frakklands í kjölfar árásarinnar sem varð í París í kvöld. Talið er að minnst einn sé látinn og tveir alvarlega særðir eftir árásina sem sögð er vera hryðjuverkaárás.
„Okkar dýpstu samúðarkveðjur til frönsku þjóðarinnar,” sagði Trump á fréttamannafundi í kvöld.
Árásin átti sér stað á Champs-Elysees verslunargötunni í París en árásarmaðurinn er sagður hafa króað lögreglubíl af þar sem hann ók eftir götunni. Á hann svo að hafa stigið út úr bíl og skotið á lögreglubílinn með Kalashnikov-riffli. Því næst hafi hann skotið á aðra lögregluþjóna á götunni. Var árásarmaðurinn felldur af lögreglu.
Sjá: Setið fyrir lögregluþjónum í París
Í frétt CNN segir að Trump hafi verið staddur á fundi með Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu, þegar honum bárust fréttir af árásinni. Í kjölfar fregnanna sagðist hann harma það hve tíðar hryðjuverkaárásir væru orðnar nú til dags um heim allan.
„Það er mjög slæmir hlutir í gangi í heiminum í dag. En hvað get ég sagt ? Við þurfum að vera sterk og vera var um okkur, ég er búinn að segja það lengi.
Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en Amaq, fréttaveita hryðjuverkasamtakanna, sagði í kjölfar árasarinnar að hún hafi verið framkvæmd af „hermanni“ samtakanna sem hafi heitið Abu Yusuf alBeljiki.
Trump sendir samúðarkveðjur til Frakklands

Tengdar fréttir

Setið fyrir lögregluþjónum í París
Einn lögregluþjónn var skotinn til bana og tveir særðir en árásarmaðurinn var felldur.