Menning

Sífelld togstreita á milli staðalímynda og raunveruleikans

Magnús Guðmundsson skrifar
Soffía Auður segir athyglisvert að það séu einkum lítil forlög sem leggi sig eftir því að gefa út klassískar þýðingar.
Soffía Auður segir athyglisvert að það séu einkum lítil forlög sem leggi sig eftir því að gefa út klassískar þýðingar. Visir/Stefán
Orlandó ­ ævisaga kom nýverið út í íslenskri þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur sem er tilnefnd til þýðingarverðlauna fyrir verkið. Þessi merka skáldsaga kom fyrst út árið 1928 og hefur síðan þá heillað lesendur á öllum tímum og haft gríðarleg áhrif á bókmenntir og hugmyndaheim fólks um víða veröld. Í Orlandó er meðal annars tekist á við hugmyndir fólks um kyn, kynferði, kyngervi og hlutverk með afar nýstárlegum hætti. Verkið hefur verið kallað lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna og er þar vísað til þess að aðalpersónan er að miklu leyti byggð á rithöfundinum Vitu Sackville West, vinkonu, og til skamms tíma ástkonu, Virginiu Woolf.

Aðspurð hvers vegna hún hafi ákveðið að ráðast í þetta mikla verk segir Soffía Auður að Orlandó sé einfaldlega bók sem verði að vera til á íslensku. „Þetta er skemmtilegasta bók Virginiu Woolf sem hefur verið minn uppáhaldsrithöfundur í meira en þrjátíu ár. Ég skrifaði BA-ritgerð fyrir rúmum þremur áratugum um Sérherbergi, sem komið hefur út í íslenskri þýðingu Helgu Kress. Það varð mér ákveðin hvatning til þess að takast á við að þýða Orlandó og ég er búin að vera að dunda mér við það síðustu tíu árin svona í hjáverkum. Þetta er gæluverkefni.

Virginia Woolf var ein af þessum fáu manneskjum sem er óhætt að fullyrða að hafi verið snillingur og nú nota ég það orð alls ekki mikið. En hún er svo hrikalega klár auk þess að vera rithöfundur sem markar nýja slóða í bókmenntasögunni í öllum sínum verkum.“

Hafnar staðalmyndum

Soffía Auður segir að í Orlandó sé Virginia Woolf að fjalla um kynhlutverk þar sem Orlandó er karlmaður í fyrri hluta bókar en breytist svo í konu í seinni hlutanum. „Þetta gerir hún af bæði svo miklu heimspekilegu innsæi og miklum húmor sem gerir að bókin er ákaflega fyndin og skemmtileg aflestrar um leið og hún tekur á ákaflega mikilvægum málum.“

En er þessi umfjöllun verksins um kynhlutverk í fullum tengslum við umræðu dagsins í dag? „Já, mér finnst hún vera mjög mikið í tengslum við þá umræðu. Það eina sem er kannski öðruvísi í dag er að nú þurfum við ekki að binda okkur sérstaklega við ákveðið kyn heldur getum losað okkur út úr þessari kynjatvíhyggju. Virgina Woolf leysir það þannig að hún segir að bæði kyn blundi í öllum einstaklingum. Hún talar um að allar manneskjur beri í sér bæði kynin, að hugurinn sé tvíkynja, hvorki kvenkyns né karlkyns, hún vill leysa þannig úr kynjatvíhyggjunni og fylgifiskum hennar.

Eftir að Orlandó breytist líkamlega úr karli í konu þá er hún ekki föst í því kynhlutverki. Ef hún vill klæða sig upp sem karlmaður og koma þannig fram þá gerir hún það. Hún er sífellt að benda á að það sem eigi að tilheyra eðliskostum kvenna og sé andstætt eðliskostum karla gengur ekki upp í persónunni Orlandó. Þetta verður svo sérstaklega skemmtilegt vegna þess að hún setur verkið upp sem ævisögu og kemur ævisagnaritaranum í stöðug vandræði með þessum mótsögnum frá einni blaðsíðu til þeirrar næstu. Þannig að í textanum er sífelld togstreita á milli staðalímynda og raunveruleikans.“

Taka meiri áhættu

Gríðarleg aukning er í umsóknum um styrki til þýðinga á íslensku til Miðstöðvar íslenskra bókmennta á þessu ári eða um 30% aukning frá síðasta ári. Þetta er skýr vísbending um mikla grósku í þýðingum bókmennta á íslensku og Soffía Auður segir að þessi aukning sé vissulega mjög gleðileg. „Ég er alveg sannfærð um að þýðingasjóður hefur mikið að segja, en taktu eftir því hverjir eru að gefa út klassískar þýðingar. Það eru allt meira og minna lítil forlög. Forlög sem hafa bókmenntalegan metnað og setja má spurningamerki við stefnu stærstu forlaganna hvað þetta snertir. Þeir virðast einfaldlega ekki tilbúnir til þess að taka eins mikla áhættu og minni forlögin og það er mjög merkilegt.

Á þessu ári kom líka önnur þýðing á verki eftir Virginiu Woolf, Mrs. Dalloway í þýðingu Atla Magnússonar, og það er bókaútgáfan Ugla sem gefur hana út og bókaútgáfan Opna gefur út Orlandó. Svo eru Angústúra og Dimma og fleiri lítil forlög að gefa út afar forvitnilegar bókmenntir og mér finnst alveg ástæða til þess að vekja athygli á þessu. En þetta verða kannski aldrei metsölubækur og kannski er það hin einfalda skýring á því að ekki eru öll forlög tilbúin til að gefa út klassískar bókmenntir.“

Nýsköpun í tungumálinu

Soffía Auður segir mikilvægt fyrir íslenska lesendur að geta nálgast heimsbókmenntir á móðurmálinu. „Auk þess er mikilvægt að hafa í huga að nýsköpun í tungumálinu kemur að miklu leyti í gegnum þýðingar. Ef við hugsum um hverjir eru aðal nýyrðasmiðir íslenskunnar þá eru það menn á borð við Jónas Hallgrímsson, Þórberg Þórðarson og aðra sem eru að takast á við að þýða erlendar bókmenntir. Maður eins og Jónas sem var í sífellu að þýða og búa til ný bókmenntaform í gegnum þýðingar. Þannig að nýsköpun í tungumálinu á sér mjög oft stað í þýðingastarfi og tungumál sem ætlar að lifa þarf á þýðingum að halda.

Þó svo við þykjumst öll meira og minna geta lesið ensku þá er það nú meira en að segja það að lesa Virginiu Woolf á frummálinu. Það er því sitthvað til í því sem Benedikt Gröndal sagði að það er best að lesa bókmenntir á sínu móðurmáli.“Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. desember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.