Erlent

Merkel segist ekki sjá eftir neinu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Angela Merkel Þýskalandskanslari. Vísir/epa
Angela Merkel Þýskalandskanslari segist ekki sjá eftir ákvörðun sinni um að opna landamæri Þýskalands fyrir milljónum flóttamanna fyrir tveimur árum. Í viðtali við þýska dagblaðið Welt am Sonntag í gær hafnaði Merkel því að hafa gert mistök með ákvörðun sinni. Hún viðurkenndi þó að ákvörðunin hefði verið umdeild og valdið djúpstæðum klofningi á meðal kristilegra demókrata, flokks hennar.

Kosið verður til þings í Þýskalandi 24. september. Samkvæmt skoðanakönnunum mælist flokkur Merkels með 38 prósenta fylgi eða um fimmtán prósent meira fylgi en sósíaldemókratar. Fylgi kristilegra demókrata hefur aukist um sex prósent síðustu sex mánuði, en er þó enn fyrir neðan kjörfylgið í síðustu kosningum árið 2013, sem var 41,5 prósent.

Merkel sagði í viðtalinu að hún myndi taka sömu ákvörðun aftur, gæfist henni kostur á því. „Það voru óvenjulegar aðstæður uppi og tók ég ákvörðunina á grunni þess sem ég taldi að væri rétt, bæði pólitískt séð og út frá mannúðarsjónarmiðum.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×