Innlent

Ragnheiður vill að Ólöf hlutist til um málefni drengsins sem senda á til Noregs

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/anton brink/gva
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, skorar á samflokksmann sinn, Ólöfu Nordal innanríkisráðherra, að bregðast við máli fimm ára íslensks drengs sem senda á úr landi á næstu vikum. Dómstóll í Noregi komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að móðir drengsins, Elva Christina, þurfi að afhenda norskum barnaverndaryfirvöldum son sinn eftir að hafa verið svipt forræði yfir honum, líkt og Vísir hefur greint frá.

„Í þessum töluðu orðum er verið að brjóta mannréttindi á litlum fimm ára dreng,“ sagði Ragnheiður á þingi í dag. 

Elva Christina átti við áfengisvanda að stríða, sem hún segist nú hafa tekist á við,  og var í kjölfarið svipt forræði yfir drengnum. Hún var þá búsett í Noregi en faðir drengsins býr í Danmörku og að sögn Christinu hefur hann engin afskipti af barninu.

Helena Brynjólfsdóttir, amma drengsins, flúði með barnið frá Noregi til Íslands eftir að dóttir hennar missti forræðið. Henni var hins vegar gert, samkvæmt dómi, að koma barninu til barnaverndaryfirvalda til Noregs. Dómurinn þýðir að Elva Christina fær ekki að hitta son sinn í 14 ár nema tvisvar á ári og þá undir eftirliti.

„Við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum og við tölum um mannréttindabrot á fólki í Sýrlandi. Virðulegur forseti. Fyrir mig sem þingmann, fyrir mig sem móður og ömmu, þá er þetta mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við og ég skora á hæstvirtan innanríkisráðherra og Barnaverndarstofu að ganga í málið nú þegar og koma í veg fyrir að þessi litli fimm ára drengur verði rifinn frá móður sinni og fjölskyldu hér á Íslandi,“ sagði Ragnheiður.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.