Innlent

Vinstri græn vildu auðlegðar- og sykurskatt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Katrín segir tímabært að horfa til myndunar minnihlutastjórnar.
Katrín segir tímabært að horfa til myndunar minnihlutastjórnar. vísir/anton brink

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að flokkurinn hafi talað fyrir auðlegðarskatti og sykurskatti í viðræðum um fimm flokka stjórnarsamstarf sem lauk í gær, ekki hærri tekjuskatti. Þetta sagði Katrín í hádegisfréttum RÚV.

Katrín hefur sagt að auka þurfi útgjöld ríkissjóðs um hátt í þrjátíu milljarða á næsta ári svo hægt verði að standa við loforð um uppbyggingu í heilbrigðis,- mennta- og samgöngumálum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í kjölfarið að útgjaldatillögur VG væru svo háar að til þess að fjármagna þær þurfi að hækka tekjuskatt. Það segir Katrín rangt.  Hún segir í samtali við mbl.is að flokkurinn hafi reiknað það út að auðlegðarskatturinn gæti skilað um tíu milljörðum króna í ríkissjóð, en fréttastofa náði ekki tali af Katrínu vegna málsins.

Þá sagði hún í samtali við RÚV að tímabært sé að horfa til myndunar minnihlutastjórnar og segist ekki útiloka að taka sæti í þeirri stjórn.

Forseti Íslands ákvað í gær að veita engum einum umboð til myndunar meirihlutastjórnar á Alþingi. Viðræður fimmflokkanna strönduðu meðal annars á kröfum Vinstri grænna um aukin útgjöld og tekjur ríkissjóðs upp á tæpa þrjátíu milljarða. Ekki er víst að Sjálfstæðisflokknum gangi betur að semja um þessi mál við Vinstri græn en flokkunum fjórum sem Vinstri græn voru í viðræðum við.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.