Skoðun

Mannlegi áratugurinn í stjórnun

Herdís Pála skrifar
Flestir þeir sem hafa mikinn áhuga á stjórnun spá gjarnan í hvernig bæta megi stjórnun þannig að rekstrarlegur árangur aukist, enda flestum ljós ákveðin tengsl þar á milli.

Starfsmaður eða manneskja

Nú ríkir það sem sumir hafa kallað mannlega áratuginn í stjórnun (e. human decade).

Nýjustu hugmyndir um stjórnun ganga út á það að horfa á starfsmanninn ekki bara sem starfsmann, heldur einstakling. Kannski erum við að fara frá mannauðsstjórnun í mannverustjórnun, frá Human re­source management í Human beings management.

Til að stjórnandi eða leiðtogi geti verið góður sem slíkur, eða til að ná tilteknum rekstrarlegum árangri, þarf hann að byrja á að vera góður í að vera leiðtogi fyrir sjálfan sig.

Hluti af því er að þekkja sjálfan sig, sín persónulegu gildi, eigin styrkleika, hugmyndir um eigin þróun o.s.frv. Að líta reglulega í spegilinn og skoða sjálfan sig vel, og eigin frammistöðu, er í dag talið algjörlega nauðsynlegt til að byggja einhvern meiri árangur á.

Hugmyndir um orkustjórnun í stað tímastjórnunar eru sprottnar upp úr þessari bylgju. Einnig að velgengni í starfi eigi ekki að þurfa að vera á kostnað velgengni heima fyrir og að besti starfsmaðurinn sé ekki endilega sá sem vinnur lengstu vinnudagana.

Skýr ávinningur

Ástæðurnar fyrir því að æ fleiri stjórnendur eða leiðtogar vilja nýta sér þessar hugmyndir við stjórnun eru ekki bara þær að starf þeirra verður meira gefandi, heldur líka að þær ýta undir starfsánægju, draga úr veikindum starfsfólks sem og kostnaðarsamri starfsmannaveltu. Þær eru jafnframt taldar ýta undir framleiðni og virkni þar sem fólk upplifir sterkari löngun til að ná árangri með vinnustaðnum. Þetta hefur einnig áhrif á ímynd vinnustaða og þeir fá fleiri starfsumsóknir og geta valið úr hæfu fólki. Á þessum vinnustöðum ríkir gjarnan menning sem gerir bæði einstaklingunum og vinnustöðunum kleift að ná sínum besta árangri.

Þetta snýst því ekki bara um að vera góður við starfsfólkið sitt, heldur finna leiðir til að auka árangur fyrir alla. Í þessum anda verður haldin í Hörpunni í febrúar 2017 alþjóðlega leiðtogaráðstefnan Only Human (sjá www.onlyhuman.is), ekki missa af henni!




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×